Baldur Björnsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Múrbúðarinnar segir að eftir á að hyggja sé farsælla að fá fjárfestana sem standa að einkahlutafélaginu MBKF inn í fyrirtækið heldur en fjárfestingarsjóð lífeyrissjóða, Arev NII, sem fréttir bárust af að hefði hætt við kaup í fyrirtækinu á síðustu stundu. Kemur þetta fram í frétt í Morgunblaðinu .

Baldur hættir sem framkvæmdastjóri

MBKF hefur samið við Baldur um kaup á 65% hlut í fyrirtækinu, jafnframt mun nýr framkvæmdastjóri verða ráðinn, en Baldur mun áfram sitja í stjórn fyrirtækisins og halda eftir 35% eignarhlut.

„Við hjónin ákváðum fyrir einu og hálfu ári að draga í land og fórum að leita að nýjum eigendum. Við teljum að fyrirtækið sé að fara í góðar hendur og sjáum að þeir eru að leggja töluvert undir með þessum viðskiptum,“ segir Baldur í samtali við Morgunblaðið.

Páll Ólafsson fulltrúi kaupenda

Að einkahlutafélaginu MBKF standa fimm aðilar, þar af tveir fjárfestingarsjóðir og þrír einstaklingar. Fulltrúi kaupendahópsins er Páll Ólafsson, en hann er einn hluthafanna.

Páll var meðal annars fjármálastjóri tískuvörumerkisins Coast á árunum 2013 og 2015 og hefur hann setið í stjórnum Aurora Fashions og Karen Millen fyrir hönd slitabús Kaupþings, en hann starfaði fyrir skilanefnd þess á árunum 2008 til 2013 en nú er hann sjálfstætt starfandi ráðgjafi.

Frumkvöðull á byggingavörumarkaði

„Baldur er frumkvöðull á byggingavörumarkaði, sem hefu rátt mikinn þátt í að stuðla að aukinni samkeppni og lægra verði fyrir alla og alltaf, eins og hann segir,“ segir Páll í fréttinni, en hann segir fyrirtækið eiga mikið inni.

„Múrbúðin stefnir á áframhaldandi sókn með það að markmiði að bjóða viðskiptavinum sínum áfram upp á góða þjónustu á hagstæðu verði.“ Aðrir í stjórn félags kaupenda eru Jóhann Gísli Jóhannesson og Sveinn Heiðar Guðjónsson.