Hópur undir forystu Gunnars Smára Egilssonar hefur keypt allt hlutafé í Miðopnu, eiganda Fréttatímans.

Jónars Haraldsson mun áfram vera ritstjóri Fréttatímans fram að áramótum en þá mun Þóra Tómasdóttir taka við sem ritstjóri ásamt Gunnari. Nýir eigendur Miðopnu eru þeir Árni Hauksson, Gunnar Smári Egilsson, Hallbjörn Karlsson, Sigurður Gísli Pálmason og Valdimar Birgisson og eiga allir viðlíka stóran hlut.

„Fjölmiðlaheimurinn er að ganga í gegnum djúpstæðar tæknilegar og félagslegar breytingar og þær munu ekki aðeins umbreyta markaðnum heldur einnig hafa mikil áhrif á samfélagið,“ segir Gunnar Smári í frétt um eigendaskiptin á heimasíðu Fréttatímans.

„Við viljum taka þátt í þessum breytingum og hafa á þær góð áhrif. Við erum að upplifa hrörnun eldri miðla og gamalla hugmynda og erum á leið inn í spennandi tíma með fjölþættari og árangursríkari fjölmiðlun sem mun leiða til opnara og lýðræðislegra samfélags.“