Evrópski fjárfestingarsjóðurinn PAI Partners hefur keypt 45% hlut í franska matvælafyrirtækinu Labeyrie Fine Foods. Labeyrie hét áður Alfesca, að stórum hluta í eigu Ólafs Ólafssonar fjárfestis sem löngum hefur verið kenndur við Samskip, og skráð í Kauphöllina hér á landi.

Morgunblaðið greinir frá kaupunum í dag upp úr umfjöllun breska dagblaðsins Financial Times . Þar er rifjað upp að Labeyrie framleiðir matvæli úr kavíar, rækjum og reyktum laxi og er auk þess eitt þriggja stærstu framleiðenda andalifrarkæfu, eða foie gras, í Frakklandi. Sala á andalifur Labeyrie nemur um 7% af heildarsölu fyrirtækisins.

PAI Partners stýrir nú Labeyrie við hlið Lur Berri, sem er samvinnufélag bænda og keypti meirihluta í Labeyrie árið 2012 og fór fyrirtækið þá úr höndum íslenskra eigenda.

Í Financial Times segir að miðað við kaupverðið á 45% hlutnum sem PAI Partners greiða fyrir Labeyrie þá sé fyrirtækið metið á 590 milljónir evra, jafnvirði rétt rúmra 90 milljarða íslenskra króna. Þar af nema skuldir um 300 milljónum evra eða í kringum 45 milljarða króna.