Samkeppniseftirlitið féllst á sölu á Skeljungi á föstudag í síðustu viku og er gert ráð fyrir því að nýir eigendur taki við félaginu eftir áramótin. Helstu eigendur Skeljungs eru hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Þórðarson en þau eiga 94% hlut í félaginu. Kaupendur eru framtakssjóður á vegum Stefnis, dótturfyrirtækis Arion banka. Morgunblaðið fjallar um kaupin í dag og segir þá sem standi að kaupum sjóðsins á Skeljungi vera lífeyrissjóði, fagfjárfesta og tryggingafélög. Blaðið segir jafnframt verðið nema 10 milljörðum króna. Einar Örn Ólafsson mun sitja áfram sem forstjóri. Hann á 3% hlut í Skeljungi.

Fasteignahluti Skeljungs og færeyska olíudreifingarfélgið P/F Magn, sem er í eigu Skeljungs og eigenda þess, eru einnig hluti af sölunni, að sögn blaðsins sem tekur fram að Samkeppniseftirlitið setur skilyrði sem tryggja virka samkeppni á olíumarkaði.