Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur selt allt hlutafé í félaginu Gagnavörslunni ehf. til félagsins Kjalar fjárfestingarfélags ehf.  Kjölur er í fullri eigu Guðmundar I. Jónssonar og Þorláks Traustasonar.  Kjölur var leiðandi hluthafi í hugbúnaðarfyrirtækinu GreenQloud ehf. sem var selt til bandaríska stórfyritækisins NetApp sl. haust.

Gagnvarslan ehf. var reist á grunni Azazo sl. haust og hefur síðan þá verið í söluferli hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Þó nokkrir aðilar höfðu sýnt áhuga á því að kaupa félagið en niðurstaðan var að selja það til Kjalar. „Mikilvægt er að rekstrargrundvöllur félagsins verði tryggður og að félaginu komi fjársterkir aðilar með þekkingu á vöruframboði Gagnavörslunar“ segir Huld Magnúsdóttir framkvæmdastjóri sjóðsins í fréttatilkynningu og bætir því við að hún telji félagið eiga bjarta framtíð með núverandi starfsmönnum og þeim metnaðarfulla hópi sem komi nú að rekstrinum.

Starfsemi Gagnavörslunnar skiptist í tvær meginstoðir; skjalastjórnunarhugbúnaðinn Azazo CoreData og vörslusetur áþreifanlegra gagna.

Annars vegar er um að ræða hugbúnað undir heitinu Azazo CoreData, sem mörg helstu fyrirtæki landsins nota í sínu daglega umhverfi  í skjala og verkefnastjórnun. Þá hefur félagið þróað hugbúnaðinn Azazo Portal sem notaður er við umsóknarferli hvers konar.

Hinn þáttur starfseminnar, vörslusetrið, er staðsett í Reykjanesbæ. Þjónustan fellst m.a. í því að taka á móti öllum pósti fyrirtækja, flokka, skanna og skila á rafrænu formi inn á réttan stað hjá viðkomandi fyrirtæki.

Nýr framkvæmdastjóri Gagnavörslunar ehf. er Davíð Guðmundsson og tók hann við rekstri félagsins þann 1. mars. „Það sem skiptir okkur máli er að Gangavarslan njóti áfram fulls trausts hjá sínum viðskiptavinum og þeir viti að fyrirtækið stefni fram veginn í enn frekari þróun og ekki síst enn frekari endurbótum á þeirri vöru sem við erum með í dag. Það er alltaf hægt að gera betur og með það starfsfólk sem við erum með í dag þá er ég mjög bjartsýnn á framhaldið," er haft eftir Davíð í fréttatilkynningunni.