Margrét Lilja Vilmundardóttir er nýr ritstjóri héraðsfréttablaðsins Bæjarins besta á Ísafirði. Blaðið var áður í eigu Bryndísar Sigurðardóttur, fyrrverandi ritstjóra.

Margrét segir að þegar fyrir lá að útgáfan myndi leggjast af hafi hópur fólks á Vestfjörðum tekið sig saman og safnaðist 1.800.000 króna hlutafé á stofnfundi nýs Útgáfufélags BB.

Enn er verið að safna hlutafé en vilyrði hafa borist fyrir tveimur milljónum til viðbótar.

Pétur Georg Markan, eiginmaður Margrétar og sveitastjóri Súðavíkurhrepps, var kosinn stjórnarformaður en hann sagði sig úr stjórninni þegar ráðning hennar lá fyrir. Aðrir í stjórn eru Neil Shiran Þórisson og Viktoría Rán Ólafsdóttir en í varastjórn sitja Baldur Smári Einarsson og Sigurður Arnórsson. Margrét segir að stærsti hluthafinn eigi um 150 þúsund króna hlut en aðrir eiga frá 50 þúsund krónum.