Guðrún Björk Stefánsdóttir og Magnús Ólafur Kristjánsson eru ný í eigendahópi KPMG en þau hafa bæði starfað hjá fyrirtækinu um árabil.

Guðrún Björk Stefánsdóttir hefur bæst í hóp eigenda hjá KPMG. Guðrún Björk hefur unnið hjá ráðgjafarsviði KPMG í 15 ár og verið einn helsti sérfræðingur félagsins í gerð fjárhagslegra áreiðanleikakannana. Hún hefur leitt flestar þær áreiðanleikakannanir sem framkvæmdar hafa verið af KPMG á undanförnum árum og hefur með þeim hætti tekið þátt í þó nokkrum af stærstu viðskiptum með félög á markaði á Íslandi.

Hún er með masterspróf í viðskiptafræðum frá Háskóla Íslands og vann í bankakerfinu áður en hún hóf störf hjá KPMG, lengst af í SPRON. Síðan þá hefur Guðrún Björk aflað sér margvíslegrar viðbótarreynslu. Guðrún Björk starfaði í tvö ár hjá KPMG í  Danmörku og vann þar í ráðgjafarverkefnum vítt og breitt á Norðurlöndunum. Guðrún Björk leiðir ásamt félögum sínum ört stækkandi ráðgjafahóp innan KPMG en sviðið telur nú á vel á fimmta tug starfsmanna.

Magnús Ólafur Kristjánsson er nýr í eigendahópi KPMG. Magnús er Vopnfirðingur en hefur búið og starfað hjá KPMG á Akureyri í rúm tuttugu ár. Magnús er með próf í hagfræði og MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Magnús hefur unnið að mörgum verkefnum í ráðgjöf og reikningshaldi og hafa einkum sjávarútvegsfyrirtæki og sveitarfélög notið hans aðkomu á liðnum árum auk fjölda annarra viðskiptavina.

KPMG hefur lagt kapp á að þjóna viðskiptavinum á öllu landinu og starfar nú þriðjungur starfsfólks utan Reykjavíkur, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Magnús mun hafa aðsetur á skrifstofunni á Akureyri en þjónar áfram viðskiptavinum um allt land.

Jón S. Helgason, framkvæmdastjóri KPMG:

„Það er okkur mikill fengur að fá þau Guðrúnu Björk og Magnús í eigendahópinn.  Bæði hafa starfað lengi hjá KPMG og njóta virðingar meðal viðskiptavina og samstarfsfólks. Guðrún Björk hefur sótt sér reynslu út fyrir landsteinana og þekkir vel til hjá KPMG á Norðurlöndunum.  Magnús hefur unnið með fyrirtækjum og opinberum aðilum á landsbyggðinni og þekkir einstaklega vel til á þeim vettvangi.  Með þau innanborðs er KPMG enn sterkari bæði út á við og inná við.“