Fasteignasalarnir og lögmennirnir Snorri Björn Sturluson og Óskar H. Bjarnasen hafa tekið við rekstri Valhallar fasteignasölu af stofnanda hennar, Ingólfi Geir Gissurarsyni. Ingólfur mun starfa áfram á Valhöll með nýjum eigendum, að því er segir í tilkynningu‏.

Valhöll fasteignasala hóf starfsemi í febrúar 1995 og er staðsett í Síðumúla 27. Valhöll starfrækir einnig útibú á Ólafsvík og Höfn í Hornafirði.

Snorri Björn Sturluson hefur starfað við sölu fasteigna frá árinu 2005. Snorri kemur til Valhallar frá Domusnova fasteignasölu þar sem hann hefur starfað undanfarin sjö ár. Snorri útskrifaðist með BA gráðu í lögfræði árið 2013 frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu árið 2015. Árið 2017 öðlaðist hann málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum og hefur hann fengist við ýmis verkefni sem lögmaður með áherslu á fasteignaviðskipti.

„Við erum mjög spenntir að taka við rekstri Valhallar fasteignsölu sem er með þekktari vörumerkjum landsins á fasteignamarkaði. Um er að ræða rótgróna fasteignasölu sem hefur verið vel rekin af Ingólfi í 28 ár. Við tökum við góðu búi og ætlum að byggja ofan á það með starfsfólki Valhallar ásamt gömlum og nýjum viðskiptavinum“ segir Snorri.

Óskar H. Bjarnasen er löggiltur fasteignasali og lögmaður frá árinu 2015. Hann útskrifaðist með meistaragráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2010 og meistaragráðu (LL.M) í evrópurétti frá Háskólanum í Lundi árið 2013. Einnig hefur hann lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Frá árinu 2014 hefur Óskar starfað við fasteignasölu og ráðgjöf tengdri fasteignarfjármögnun fyrirtækja. Þar áður starfaði hann í fjögur ár við sölu og viðskiptaþróun hjá alþjóðlegu fyrirtæki í Svíþjóð. Óskar kemur til Valhallar frá Miklaborg fasteignasölu þar sem hann starfaði fá árinu 2018.

,,Draumur okkar er að gera Valhöll að eftirsóknarverðum vinnustað og að ráðgjöf okkar og vinna í þágu viðskiptavina sé ávallt í sérflokki“ segir Óskar.