Fyrirtækið Lokinhamrar, sem er í eigu Jóns Hákons Ágústssonar og Björns Magnússonar, hefur keypt eignina Hafnarbraut 2, gamla Kaupfélagshúsið á Bíldudal og verða gerðar á því miklar endurbætur segir í frétt á vefsvæðinu www.arnfirðingur.is. Húsið hefur verið í hótelrekstri en nú verða gerðar miklar endurbætur á því og herbergjum fjölgað.

Herbergjum verður fjölgað þannig að gistirými skapast fyrir 23 í stað 15 áður. Herbergin verða alls 11 og eitt þeirra verður fyrir þá er kjósa svefnpokapláss en það mun rúma 6 manns. Innréttaður verður stór salur, á jarðhæð í vesturenda hússins, sem rúma mun 50 ? 70 manns í sæti. Smíða á pall við vesturgaflinn og verður hægt að ganga út á hann úr salnum, sem mun eflaust verða vinsælt á góðviðrisdögum.

Ætla þeir félagar að bjóða upp á veitingar, tónlist og ýmsar aðrar uppákomur allt árið, ásamt því að sýna á stórum skjá frá íþróttaviðburðum eins og t.d. fótbolta og formúlu.

Stefnt er að opnun gistiaðstöðu í maí og hefja þá sölu veitinga í núverandi sal en öllum breitingum á að verða lokið fyrir Bíldudals grænar? í lok júní og þá verði einnig búið að mála húsið að utan og fegra umhverfið.

Byggt á www.arnfirðingur.is