Hluthafafundur Advania fór fram í dag þar sem kjörin var ný stjórn og tilkynnt um nýja eigendur, AdvInvest, sem eignast 57% í fyrirtækinu. Framtakssjóður Íslands sem áður átti 71% á nú 32%, en aðrir aðilar eiga um 9,5% í fyrirtækinu.

Thomas Ivarson frá AdvInvest tekur við af Finnboga Jónssyni sem stjórnarformaður félagsins. Hann hefur undanfarna þrjá áratugi leitt alþjóðleg upplýsingatæknifyrirtæki á borð við CMG, Logica, WM Data og CGI.

Auk hans taka þau Birgitta Stymne Göransson og Bengt Engström sæti í stjórn Advania fyrir AdvInvest. Birgitta hefur langa reynslu sem æðsti stjórnandi fyrirtækja á sviði heilbrigðismála og upplýsingatækni í Svíþjóð. Bengt hefur einnig reynslu úr heimi upplýsingatækninnar og hefur m.a. verið forstjóri Fujitsu og ráðgjafi hjá Bearing Point. Í stjórninni eiga einnig sæti þau Katrín Olga Jóhannesdóttir og Kristinn Pálmason.

„Ég er gríðarlega sáttur og bjartsýnn á framhaldið. Hér er kominn sterkur og öflugur hópur fjárfesta bæði með reynslu og þekkingu á rekstri alþjóðlegra upplýsingatæknifyrirtækja,  af fyrirtækjarekstri almennt og ýmsum stjórnarsetum. Það er okkur hjá Advania mikils virði að fá þessa verðmætu kunnáttu og reynslu inn í stjórnina. Með breytingunum erum við enn betur í stakk búin að takast á við komandi verkefni í framtíðinni,“ er haft eftir Gesti G. Gestssyni, forstjóra Advania, í fréttatilkynningu.