*

sunnudagur, 18. apríl 2021
Innlent 5. mars 2021 07:03

Nýir eigendur setja Kántrýbæ á sölu

Kántrýbær á Skagaströnd er auglýstur til sölu af nýjum eigendum. Líkur séu á að umferð aukist um svæðið með sjóböðum.

Ritstjórn
Kántrýbær á Skagaströnd.
Haraldur Guðjónsson

Kántrýbær við Skagaströnd hefur verið auglýstur til sölu af nýjum eigendum. Bókhaldsþjónusta Suðurnesja keypti húsið fyrir 10 milljónir króna á nauðaungarsöluuppboði í september síðastliðnum. Húsið var fram til þess í eigu félagsins Villta Vestrið á Skagaströnd ehf., sem er í eigu Hallbjörns Hjartarsonar, sem jafnan hefur verið kenndur við Kántrýbæ. Ásett verð er 35,9 milljónir króna en brunabótamat eignarinnar er 123,5 milljónir króna.

Skráð flatamál eignarinnar er 384 fermetrar og samanstendur af tveim húsum að því er fram kemur á fasteignavef Mbl. Annars vegar finnsku bjálkahúsi byggðu 1998 sem er skráð 255 fermetrar á tveim hæðum og hins vegar eldra timburhúsi, sem er 129 fermetrar og byggt árið 1945. Það var það endurgert að hluta 1998 þegar bjálkahúsið var reist. 

Í fasteignaauglýsingu kemur fram að á neðri hæð hússins sé veitingastaður með tveimur sölum, bar, kaffibar, sviði, veislueldhúsi og fimm salernum en á á efri hæðinni stór salur, 4 herbergi, baðherbergi og geymsla. 

Þá er bent á að sveitarfélagið hafi á liðnu ári hafið vinnu við hönnun á heitum laugum við Hólanes sem muni án efa auka straum ferðamanna um svæðið sem og tekjumöguleika eignarinnar. Hugsanlegt væri einnig að nýta húsnæðið sem íbúðarhús.

Kántrýbær stendur við Hólanesveg 11 og hafði fram að nauðungarsölunni verið auglýst til sölu nokkrum sinnum á undanförnum árum.

Stikkorð: Kántrýbær