Nýir eigendur breska knattspyrnufélagsins West Ham United leitast nú eftir því að afla á milli 20-40 milljón Sterlingspunda til að efla rekstur félagsins.

Sem kunnugt er keyptu þeir David Sullivan, fyrrv. eigandi Birmingham City og viðskiptafélagi hans David Gold, helmingshlut í félaginu um miðjan janúar.

Hlutur þeirra er metinn á um 105 milljónir punda. Þeir keyptu hlutinn af CB Holding, dótturfélagi Straums Burðaráss, en Straumur var einn helsti lánadrottinn Hansa, félags Björgólfs Guðmundssonar, sem keypti West Ham haustið 2006. Þeir Sullivan og Gold hafa þó forkaupsrétt fram á vor á þeim 50% hlut sem enn er í eigu CB Holding.

Í frétt BBC kemur fram að þeir Sullivan og Gold vilji styrkja stöðu félagsins fjárhagslega. Um miðjan janúar buðu þeir fjársterkum aðdáendum West Ham að fjárfesta í félaginu en nú greinir BBC frá því að fjárfestingafélag þeirra Shore Capital sé að leita eftir fagfárfestum.

Karren Brady, fyrrv. framkvæmdastjóri Birmingham City, sem nú er varaformaður stjórnar West Ham segir þó í samtali við BBC að aðkoma einstaklinga sé ekki útilokuð. Jafnvel þó að horft sé til fjárfesta sé fullur vilji fyrir hendi til að opna fyrir aðkomu fjársterkra einstaklinga.

Talið er að skuldir West Ham nemi um 100 milljónum punda.