Málsmeðferð í deilu Hafnarfjarðarbæjar gegn Orkuveitu Reykjavíkur var frestað í héraðsdómi í gær til 26. september nk.

Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri Orkuveitunnar, vonast þó til að málið leysist fyrir þann tíma.

„Það eru áhugasamir kaupendur á eignarhlut okkar í Hitaveitunni, bæði 16% hlutnum sem við förum nú með og þeim 15% hlut sem við sömdum um að kaupa af Hafnafjarðarbæ. Hitaveitan er traust félag, frekari virkjanir eru í burðarliðnum og áhuginn því mikill,“ segir Hjörleifur, en nýir kaupendur gætu komið í veg fyrir að deila OR og Hafnarfjarðar verði leyst með dómsúrskurði.

Í málssókn sinni fer Hafnarfjarðarbær fram á að OR greiði sér 8,5 milljarða króna auk dráttarvaxta, sem nema um 5,2 milljónum á dag, fyrir hlutinn sem OR skuldbatt sig til að kaupa af bæjarfélaginu á síðasta ári.

Eigendur Hitaveitunnar áttu forkaupsrétt á hlutnum en áður en sá réttur rann út höfðu samkeppnisyfirvöld úrskurðað að Orkuveitan mætti ekki eiga meira en 10% í Hitaveitunni. Ef kaupin ganga í gegn er eignarhlutur OR 30% eða þrefalt meiri en samkeppnisyfirvöld heimila.