Nýir fjárfestar eru komnir í hluthafahóp DV. Björn Ingi Hrafnsson, aðaleigandi fjölmiðilsins, segir að fjölmiðlanefnd verði tilkynnt um þá síðar í dag eða á morgun, en vill þó ekki gefa upp nöfnin að svo stöddu. Þetta kemur fram á mbl.is .

„Þegar ég keypti þetta sagði ég að fleiri aðilar myndu koma inn. Við stefnum að dreifðri eignaraðild,“ segir Björn Ingi í samtali við mbl.is. Þá býst hann við miklum samrunum á fjölmiðlamarkaði á komandi ári og segir að DV þurfi meira fjármagn ef það ætli að gera eitthvað með öðrum fjölmiðlafyrirtækjum.

Félagið Pressan ehf. á um 70% hlut í DV, en félagið er að mestu í eigu Björns Inga. Þá á Sigurður G. Guðjónsson 10% hlut í Pressunni eins og Jón Óttar Ragnarsson og Steinn Kári Ragnarsson.