„Íslendingarnir hafa samþykkt að breyta hluta skuldabréfsins og nýir fjárfestar eignast lítinn hlut í útgáfufélagsinu," segir Lars Lindstrøm, fjármálastjóri Nyhedsavisen í samtali við Børsen í dag. Í dag er síðasti dagurinn fyrir Nyhedsavisen til að skila uppgjöri fyrir árið 2007 til ársreikningaskrár þar í landi.

Stoðir Invest eiga 250 milljóna danskra króna skuldabréf á hendur Nyhedsavisen, eða sem nemur fjórum milljörðum króna. Morten Lund, meirihlutaeigandi Nyhedsavisen, hefur unnið að fjármögnun blaðsins að síðustu vikur og mánuði. Lund sagðist í samtali við helgarblað Viðskiptablaðsins ekkert vilja tjá sig um hvernig gengi að fá nýja peninga inn í útgáfuna.

Nyhedsavisen hefur verið rekið með miklu tapi frá upphafi, en blaðið er orðið mest lesna dagblað Danmerkur.

Fjármálastjóri Nyhedsavisen vill ekki upplýsa um hversu stórum hluta skuldabréfsins verður breytt, en verði um stóran hluta að ræða verða Stoðir Invest stærsti hluthafi blaðsins á ný.

Einn af stjórnendum Saxo Bank, Lars Seier Christiansen, hefur áður verið nefndur til sögunnar sem mögulegur fjárfestir í Nyhedsavisen. Heimildir Børsen herma hins vegar að Christiansen hafi ekki áhuga.

Meðal annarra fjárfesta sem nefndir hafa verið til sögunnar eru fjárfestingasjóðirnir 3i og General Atlantic, ásamt fleiri, smærri einkafjárfestum.