Títan fjárfestingafélag, Hilmar Gunnarsson og Bru II Venture Capital Fund hafa í sameiningu keypt meirihluta hlutafjár í tölvuteiknimyndafyrirtækinu CAOZ, sem nú vinnur að framleiðslu tölvuteiknimyndarinnar Þór – í Heljargreipum. Nokkrir eldri hluthafar ásamt lykilstarfsmönnum tóku einnig þátt í hlutafjáraukningunni. Auk þess að fjárfesta í félaginu þá leggja fjárfestarnir til hluta af verkefnafjármögnun myndarinnar, sem er nú fjármögnuð að fullu. Heildarverðmæti samnings þessa nemur um 300 milljónum króna segir í tilkynningu.

Framleiðslukostnaður myndarinnar um Þór er um 7,2 milljónir Evra eða sem nemur um 1,3 milljörðum króna miðað við núverandi gengi og er Þór því stærsta kvikmyndaverkefni sem ráðist hefur verið í hérlendis til þessa. Myndin kemur á markað um heim allan fyrri hluta ársins 2011.