Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur skipað þrjá nýja forstjóra yfir jafn mörgum heilbrigðisstofnunum. Herdís Gunnarsdóttir hefur verið skipuð forstjóri nýrrar Heilbrigðisstofnunar Suðurlands sem tekur til starfa 1. október næstkomandi, Þröstur Óskarsson er forstjóri nýrrar Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og Jón Helgi Björnsson er forstjóri nýrrar Heilbrigðisstofnunar Norðurlands.

Allar heilbrigðisstofnanirnar taka til starfa 1. október næstkomandi, að því er fram kemur í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu.

Ný Heilbrigðisstofnun Suðurlands verður til við sameiningu heilbrigðisstofnananna á Selfossi, Höfn og í Vestmannaeyjum. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða verður til við sameiningu heilbriðgisstofnananna á Patreksfirði og í Ísafjarðarbæ. Heilbrigðisstofnun Norðurlands verður til við sameiningu heilbrigðisstofnananna á Blönduósi, Sauðárkróki, Fjallabyggð, heilsugæslustöðvarnar á Dalvík og Akureyri og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga.