Sveinbjörn Sveinbjörnsson hefur verið ráðinn forstöðumaður Einkabankaþjónustu VÍB, eignastýringarsviði Íslandsbanka. Hann hefur starfað hjá Íslandsbanka í 11 ár, þar af síðastliðin 6 ár hjá Einkabankaþjónustunni en áður hjá Markaðsviðskiptum í verðbréfamiðlun. Sveinbjörn er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með próf í verðbréfaviðskiptum.

Katrín Oddsdóttir, sem hefur stýrt Einkabankaþjónustu VÍB frá hausti 2008, hefur jafnframt tekið við nýrri deild, Viðskiptaþróun. Deildin mun leggja áherslu á vöruþróun. Katrín hefur unnið hjá Íslandsbanka síðastliðin 16 ár en hún var áður hjá Markaðsviðskiptum í gjaldeyrismiðlun. Hún er hagfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og með próf í verðbréfaviðskiptum.

Ný deild viðskiptaþróunar er liður í breytingum sem hafa verið gerðar á skipulagi VÍB. Markmiðið með breytingunum er að auka áherslu á vöruþróun og sölu- og þjónustumál. Tryggja á að VÍB bjóði bæði núverandi og tilvonandi viðskiptavinum sínum þær vörur og þjónustu sem þörf er fyrir hverju sinni.

Sem liður í þessum breytingum þá mun VÍB Fjárfestingar sjá um að ávaxta fjármuni viðskiptavina með eignastýringarsamning við VÍB. Deildin var áður innan Íslandssjóða og forstöðumaður VÍB Fjárfestinga er sem áður Hrafn Árnason. Hann hefur 17 ára reynslu af eignastýringu og fjármálamörkuðum og er með MBA gráðu frá University of Edinburgh, cand.oecon gráðu í fjármálum frá Háskóla Íslands og próf í verðbréfaviðskiptum.