Tryggingarstofnun hefur ráðið til sín tvo framkvæmdarstjóra, Herdísi Gunnarsdóttur og Davíð Ólaf Ingimarsson. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

Herdís Gunnarsdóttir hefur tekið við framkvæmdastjórastöðu réttindasviðs Tryggingastofnunar. Um er ræða nýtt svið innan stofnunarinnar sem sameinar lífeyrissvið og færnisvið en þar starfa um 60 manns. Helstu verkefni réttindasviðs eru þjónusta við viðskiptavini, afgreiðsla umsókna, ákvörðun réttinda og stjórnsýslumál.

Herdís var meðal annars forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands 2014 - 2019. Á árunum 2001-2014 starfaði hún á Landspítala meðal annars sem klínískur verkefnastjóri á sviði upplýsingatækni og á þróunarskrifstofu framkvæmdastjóra hjúkrunar. Herdís er með BSc-próf í hjúkrunarfræði frá HÍ og MSc-próf í barnahjúkrun. Árið 2009 lauk hún MBA prófi frá HÍ.

Davíð Ólafur Ingimarsson hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Tryggingastofnunar. Helstu verkefni rekstrarsviðs eru fjárhagsgreiningar, bókhald, útgreiðslur, innheimta og eftirlit, skjalastjórnun, póstmiðstöð, rekstur húsnæðis og almenn símsvörun.

Á árunum 2007-2015 starfaði Davíð sem yfirmaður lánamála og sjóðastýringar hjá Landsvirkjun. Á árunum 2015-2017 starfaði hann sem fjármálastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Greenqloud og var einn af lykilmönnum í söluferli fyrirtækisins til bandaríska félagsins NetApp. Davíð er með B.Sc. og M.Sc. próf í hagfræði, M.Sc. próf í fjármálum fyrirtækja og er löggiltur verðbréfamiðlari.