Þrír starfsmenn 365 voru í dag ráðnir sem framkvæmdastjórar hjá fyrirtækinu. Gunnar Ingvi Þórisson verður framkvæmdastjóri fjarskipta- og tæknisviðs, Jóhanna Margrét Gísladóttir verður framkvæmdastjóri sjónvarpssviðs og Sigrún L. Sigurjónsdóttir verður framkvæmdastjóri fjármálasviðs, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá 365.

Gunnar Ingvi var einn af aðaleigendum Sensa ehf. og sat í stjórn félagsins frá 2002-2007. Hann starfaði hjá Sensa til loka árs 2012 við ráðgjöf og þjónustu fyrir ýmis fyrirtæki.

Jóhanna Margrét útskrifaðist með meistaragráðu í rekstrarverkfræði  frá Duke háskóla í Bandaríkjunum í vor og er einnig með BSc í rekstrarverkfræði frá HR. Undanfarið hefur Jóhanna gegnt starfi rekstrarstjóra sjónvarpssviðs 365 en hún starfaði áður sem fréttamaður á Stöð 2.

Sigrún er viðskiptafræðingur að mennt og útskrifaðist með MBA-próf frá Háskólanum í Reykjavík 2009. Sigrún hefur starfað hjá 365 síðan 2004. Hún var forstöðumaður fjárstýringar og greiðsluþjónustu hjá fyrirtækinu og svo fjármálastjóri þar til um áramót þegar hún tók við sölu- og þjónustusviði áskrifta hjá félaginu.

Í tilkynningunni er haft eftir Sævari Frey Þráinssyni, forstjóra 365, að hann sé ánægður með þessa niðurstöðu, ekki síst vegna þess að með ráðningunum fjölgi konum í stjórnendahópi fyrirtækisins.