*

þriðjudagur, 18. júní 2019
Fólk 9. október 2018 10:45

Nýir framkvæmdastjórar hjá Bláa lóninu

Skipulagsbreytingar hafa verið gerðar hjá Bláa Lóninu og nýir framkvæmdastjórar ráðnir yfir þrjú ný svið fyrirtækisins.

Ritstjórn
Þórey G. Guðmundsdóttir, Helga Árnadóttir og Már Másson ráðin framkvæmdastjórar hjá Bláa lóninu.
Aðsend mynd

Skipulagsbreytingar hafa verið gerðar hjá Bláa Lóninu og fer megin starfsemi þess nú innan þriggja kjarnasviða. Breytingarnar endurspegla aukna áherslu á stafræna þróun og samþættingu í rekstri félagsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu. 

Framkvæmdastjórar sviðanna þriggja verða Þórey G. Guðmundsdóttir, Helga Árnadóttir og Már Másson. Þau taka jafnframt sæti í framkvæmdastjórn Bláa Lónsins, ásamt Grími Sæmundsen forstjóra og Garðari Gíslasyni, lögmanni félagsins.

„Einn megin drifkraftur Bláa Lónsins er viljinn til breytinga. Starfsmenn og stjórnendur Bláa Lónsins hafa náð frábærum árangri  á undanförnu ári með opnun á nýju hóteli, veitingastöðum og upplifunarsvæði og áframhaldandi öflugum rekstri Bláa Lónsins,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins. „Á næstu misserum munum  við fjárfesta frekar í upplýsingatækni og setja stóraukinn kraft í stafræna þróun, sölu og þjónustu við okkar viðskiptavini. Þá munum við  einbeita okkur að því að samhæfa alla starfsemi okkar og tryggja að allir gangi í takt. Þessar breytingar miða einmitt að því .“

Kjarnasviðin þrjú eru viðskipta- og rekstrarsvið, fjármála- og upplýsingatæknisvið og þróunar- sölu- og markaðssvið.

Þórey G. Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála- og upplýsingatæknisviðs

Þórey G. Guðmundsdóttir er framkvæmdastjóri fjármála- og upplýsingatæknisviðs Bláa Lónsins. Þórey hefur verið fjármálastjóri Bláa Lónsins síðan 2013.

Áður starfaði Þórey hjá Samskipum þar sem hún bar ábyrgð á fjárhagsáætlunum og uppgjöri félagsins og dótturfélaga á Íslandi. Hún var forstöðumaður fjármálasviðs hjá Straumi Fjárfestingabanka 2004-2013. Þá starfaði hún sem sérfræðingur á fjármálasviði Íslandsbanka (áður FBA) frá 2000 til 2004 og hjá KPMG á tímabilinu 1995 til 1999. Þórey er viðskiptafræðingur, Cand oecon frá Háskóla Íslands.

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri þróunar-, sölu- og markaðssviðs

Helga Árnadóttir er framkvæmdastjóri þróunar, sölu- og markaðssviðs Bláa Lónsins. Þróunar, sölu- og markaðssvið ber ábyrgð á öllum sölu- og markaðsmálum félagins og leiðir stafræna vöruþróun Bláa Lónsins.

Helga hóf störf hjá Bláa Lóninu í júní síðastliðnum en áður var hún framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar frá 2013 til 2018. Hún var fjármálastjóri og síðar framkvæmdastjóri VR á árunum 2008-2013. Áður gegndi hún ýmsum stjórnunarstöðum hjá Icelandair og var m.a. forstöðumaður Vildarklúbbs Icelandair, sölustjóri Icelandair á Íslandi og deildarstjóri áætlunar- og eftirlitsdeildar Icelandair. Helga er viðskiptafræðingur, Cand oecon frá Háskóla Íslands og með MSc. gráðu í fjármálum frá Háskólanum í Reykjavík.

Már Másson - framkvæmdastjóri viðskipta- og rekstrarsviðs

Már Másson er framkvæmdastjóri viðskipta- og rekstrarsviðs Bláa Lónsins. Undir viðskipta- og rekstrarsvið heyra viðskipta- og rekstrareiningar Bláa Lónsins hf. í Svartsengi, en félagið rekur þar tvo baðstaði, fjóra veitingastaði og verslun og einnig verslanir í Leifsstöð og í Reykjavík. Þá heyrir fasteignasvið og mannauðs- og gæðasvið einnig undir viðskipta- og rekstrarsvið. 

Már hefur starfað hjá Bláa Lóninu frá því 2016 sem forstöðumaður markaðs- og mannauðssviðs félagsins. Áður starfaði Már hjá Íslandsbanka frá árinu 2008. Þar veitti hann samskiptasviði bankans forstöðu auk skrifstofu bankastjóra. Þá var hann forstöðumaður Dreifileiða og nýsköpunar hjá bankanum 2013-2016. Már er með B.Sc. gráðu í alþjóðaviðskiptum frá CBS í Kaupmannahöfn og MSc. gráðu í stjórnun frá USI í Lugano í Sviss.

Stikkorð: Bláa lónið
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is