Skeljungur hefur ráðið til liðs við sig tvo nýja framkvæmdastjóra yfir sölusviði Skeljungs og markaðssviði sem er nýtt svið. Eftir breytingarnar eru fjögur svið sem heyra undir forstjóra félagsins, segir í tilkynningu.

Sigurður Orri Jónsson hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra sölusviðs. Sigurður er með meistaragráðu í viðskiptahagfræði frá Háskólanum í Álaborg og BS í viðskiptafræði frá sama skóla. Undanfarin ár hefur Sigurður starfað hjá Eimskip, en frá 2006 hefur hann gengt stöðu framkvæmdastjóra Eimskips í Danmörku.

Sigurður Orri Jónsson
Sigurður Orri Jónsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Við stöðu framkvæmdastjóra markaðssviðs tekur Ingunn Sveinsdóttir, en hún hefur starfað hjá N1 frá árinu 2006 sem framkvæmdastjóri einstaklingssviðs og sölu- og markaðssviðs. Áður starfaði Ingunn sem útibússtjóri hjá Íslandsbanka.  Ingunn er viðskiptafræðingur að mennt og útskrifaðist frá Háskóla Íslands.

Breytingar eru hluti af uppbyggingu Skeljungs og liður í að efla enn frekari vöxt félagsins.

„Við ráðumst í þessar breytingar nú til að ná betur til okkar viðskiptavina og styrkja enn frekar það kraftmikla starf sem unnið er í Skeljungi og stuðla að enn frekari vexti. Við bjóðum þessa öflugu starfsmenn velkomna í hópinn“ segir Valgeir M. Baldursson forstjóri Skeljungs