Þorvaldur Jacobsen, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra Tæknisviðs Nýherja, hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra Vörusviðs félagsins. Þá hefur Gunnar Zoëga tekið við starfi framkvæmdastjóra Tæknisviðs Nýherja.

Þorvaldur Jacobsen hefur starfað hjá Nýherja samstæðunni frá 2002, þar á meðal sem framkvæmdastjóri Kjarnalausna og Samskiptalausna Nýherja og sem framkvæmdastjóri Tæknisviðs Skyggnis. Þorvaldur er rafmagnsverkfræðingur frá Háskóla Íslands, með BS gráðu í tölvunarfræði frá sama skóla og meistaragráðu í verkfræði frá University of Texas í Austin. Vörusvið annast þjónustu á tölvum og tengdum tæknibúnaði auk hljóð- og myndbúaðar og er ábyrgt fyrir markaðssetningu, sölu, innflutningi og viðhaldsþjónustu fyrir slíkan búnað. Undir Vörusvið heyra vörustjórar, innkaupadeild og dreifingamiðstöð auk verkstæðis.

Gunnar Zoëga hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra Tæknisviðs Nýherja en hann hóf störf hjá TM Software árið 2003 og hefur síðan gegnt ýmsum störfum þar, hjá Skyggni og síðan hjá Nýherja, nú síðast sem deildarstjóri Umsjár. Gunnar lauk BS í viðskipta- og tölvunarfræði frá University of South Carolina og kerfisfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Meðal þátta í starfsemi Tæknisviðs er Umsjá sem sinnir 24/7 notendaþjónustu, vettvangsþjónustu og fjarvöktun fyrir viðskiptavini. Meðal verkefna er uppsetning, viðhald og rekstur á miðlægum innviðum, net- og öryggislausnum, samskiptalausnum, prentlausnum, hljóð- og myndlausnum, IBM hugbúnaði og Microsoft lausnum. Tæknisvið ber ábyrgð á kerfissölum Nýherja og rekstri Kerfisveitu og Netveitu.