Actavis Group hf. hefur ráðið þrjá nýja framkvæmdastjóra til starfa. Tveir þeirra verða yfir nýjum sviðum félagsins. Sigurður Óli Ólafsson verður framkvæmdastjóri fyrirtækjaþróunar og Svafa Grönfeldt framkvæmdastjóri stjórnunarsviðs. Per Edelmann tekur við stöðu framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs eigin vörumerkja. Þessum breytingum er ætlað að efla heildarskipulag og skilvirkni félagsins og styrkja innviði þess fyrir áframhaldandi vöxt og útrás inn á nýja markaði.

Sigurður Óli Ólafsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaþróunar

Sigurður ber ábyrgð á samruna og yfirtöku fyrirtækja, markaðsgreiningum og stýringu verkefnasafns (portfolio management). Hann mun einnig hafa umsjón með kaupum á markaðs- og einkaleyfum auk þess að sinna viðskiptaþróun. Sigurður hefur verið framkvæmdastjóri Actavis Inc. í Bandaríkjunum og gegnir því starfi áfram um stundarsakir. Hann kom til starfa hjá Actavis árið 2003 eftir að hafa starfað hjá Pfizer í Bretlandi frá 1998 og síðar Pfizer í Bandaríkjunum 2001-2003. Áður en Sigurður hóf störf hjá Pfizer var hann markaðsstjóri og síðar lyfjaþróunarstjóri hjá Omega Farma (nú Actavis). Sigurður er lyfjafræðingur frá Háskóla Íslands. Hann er fæddur árið 1968.

Svafa Grönfeldt, framkvæmdastjóri stjórnunarsviðs

Svafa ber ábyrgð á samþættingu stefnumörkunar innan Actavis auk þess að fylgja eftir markmiðum og aðgerðaáætlunum, styðja við uppbyggingu á skipulagi félagsins og samræma mannauðsstjórn innan þess. Þá ber Svafa ábyrgð á stjórnendaþjálfun fyrir Actavis-skólann. Svafa Grönfeldt starfaði áður í EMEA-stjórnendateymi Deloitte ráðgjafar í Evrópu og var einn eigenda og framkvæmdastjóri ráðgjafar hjá IMG Deloitte á Íslandi. Svafa er lektor í rekstrarhagfræði við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og hefur stýrt stjórnendaþjálfun í Bandaríkjunum og Bretlandi. Svafa Grönfeldt er með Ph.D. gráðu í atvinnugreinatengslum frá London School of Economics and Political Science. Svafa er fædd árið 1965.

Per Edelmann, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs eigin vörumerkja

Per sem verið hefur yfir alþjóðlegum viðskiptum, sölu og markaðssetningu, verður framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs eigin vörumerkja frá og með 1.nóvember nk. Per hóf störf hjá Actavis í júní síðastliðnum. Hann starfaði áður sem forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Alpharma. Þar áður var hann forstöðumaður Evrópudeildar sölu- og markaðssviðs Alpharma. Per Edelmann brautskráðist með MBA gráðu frá Copenhagen Business School og hefur ennfremur lokið ýmsum stjórnunarnámskeiðum hjá London Business School og Harvard Business School. Per Edelmann er fæddur árið 1963.

Kristján Sverrisson, sem gegnt hefur stöðu framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs eigin vörumerkja, lætur af störfum þann 1.nóvember nk. en mun áfram sinna ráðgjöf fyrir Actavis næstu mánuði.