Stærsti íþróttaviðburður heims fer fram í kvöld þegar Þýskaland og Argentína mætast í úrslitaleik Heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu í Brasilíu. Leikurinn fer fram á hinum sögufræga Maracana leikvangi í Rio De Janeiro.

Athugið að leikurinn hefst klukkan 19 í kvöld en ekki 20.

Þýskaland, sem þegar hefur skrifað nafn sitt rækilega í sögubækurnar með því að sigra heimaþjóðina Brasilíu 7-1 í undanúrslitum, getur bætt einum kafla við. Engin Evrópuþjóð hefur orðið heimsmeistari þegar mótið hefur verið haldið í Ameríku. Raunar hefur Ameríkuþjóð aðeins einu sinni sigraði á HM þegar það hefur varið haldið í Evrópu. Það gerði Brasilía árið 1958 þegar mótið var haldið í Svíþjóð. Á því móti skaust Péle fram á sjónarsviðið.

Þetta verður í fimmta skiptið sem Argentínumenn spila til úrslita. Þeir gerðu það í fyrstu keppninni sem haldin var í Úrugvæ árið 1930. Þá töpuðu þeir fyrir gestgjöfunum í úrslitaleiknum.

Argentínumenn sigruðu síðan Holland í úrslitaleiknum árið 1978, en þá var mótið haldið í Argentínu.

Í keppninni sem haldin var í Mexíkó árið 1986 sigruðu Argentínumenn, þá með Maradona í broddi fylkingar, Þjóðverja í úrslitaleik. Fjórum árum síðar, eða árið 1990 á Ítalíu, hefndu Þjóðverjar fyrir og sigruðu Argentínu í úrslitaleik.

Leikurinn í kvöld verður því í þriðja skiptið sem þessar þjóðir mætast í úrslitaleik á HM.

Þetta verður í áttunda skiptið sem Þjóðverjar leika til úrslita á HM í knattspyrnu. Þeir urðu fyrst heimsmeistarar í Sviss árið 1954 þegar þeir sigruðu Ungverja í úrslitaleik.

Í Englandi árið 1966 töpuðu Þjóðverjar fyrir gestgjöfunum í frægum úrslitaleik sem endaði 4-2 fyrir Englandi.

Þegar mótið var haldið í Vestur-Þýskalandi árið 1974 sigruðu heimamenn Holland í úrslitaleiknum. Holland var með frábært lið á þessum árum og komst líka í úrslitaleikinn í Argentínu fjórum árum síðar eins og sagt hefur verið frá.

Á Spáni árið 1982 tapaði Þýskaland fyrir Ítalíu í úrslitum og aftur töpuðu þeir fjórum árum seinna, þá fyrir Argentínu. Á Ítalíu árið 1990 sigraði Þýskaland síðan Argentínu eins og áður sagði.

Þjóðarverjar léku síðan til úrslita á HM í Japan og Kóreu árið 2002 en töpuðu þá fyrir Brasilíu.