Borgaryfirvöld hafa ákveðið að leggja nýja hjólastíga fyrir hálfan milljarð króna á þessu ári. Helst ber að nefna meðfram Sæbraut; milli Kringlumýrarbrautar og Faxagötu verður lagður nýr hjólastígur og sá sem fyrir er verður eingöngu fyrir gangandi fólk.

Stígurinn frá Gullinbrú að nýju göngubrúnum yfir Elliðaárnar við Geirsnef verður endurbættur. Meðfram Kringlumýrarbraut kemur nýr hjólastígur á tveimur stöðum. Þá hafa borgaryfirvöld samþykkt að hefja undirbúning og hönnun vegna göngu- og hjólastíga í Elliðaárdal, auk brúar yfir Elliðaár við Rafstöð.