Stjórn Össurar hf. ákvað í dag að efna til útboðs á nýju hlutafé. Um er að ræða 63.391.690 hluti á genginu 81 króna á hlut. Heildarsöluverðmæti hinna nýju hluta nemur 5.135 milljónum króna. Útboðið er liður í fjármögnun á kaupum á bandaríska félaginu Royce Medical Holdings Inc.

Fyrirtækjaráðgjöf KB banka hefur umsjón með útboðinu og hefur bankinn sölutryggt útboðið að fullu á útboðsgengi.

Hluthafar njóta forgangsréttar að nýjum hlutum og er forgangsréttur hlutfallslegur miðaður við hlutafjáreign í Össuri hf. í lok dags þann 7. september 2005. Hinir nýju hlutir jafngilda 20% hækkun á virku hlutafé og þarf fulla fimm hluti til að öðlast forgangsrétt að hverjum nýjum hlut. Hluthöfum er heimilt að skrá sig fyrir fleiri hlutum en sem nemur forgangsrétti þeirra og verður ónýttum forgangsréttarhlutum útdeilt í hlutfalli við forgangsrétt þeirra sem þess óska. Hluthöfum er heimilt að framselja forgangsrétt sinn að hluta eða í heild en réttur til umframáskriftar er ekki framseljanlegur.

Áskriftartímabil hefst klukkan 10 mánudaginn 19. september og stendur til klukkan 17 föstudaginn 23. september næstkomandi. Skráning áskrifta mun einungis fara fram á vef KB banka (www.kbbanki.is). Eindagi á greiðslu hinna nýju hluta verður 4. október 2005.

Útboðs- og skráningarlýsing verður birt föstudaginn 9. september næstkomandi.