Fyrirtæki sem sérhæfir sig í rekstri hraðbanka, Tomato ehf. hefur sett upp fimm hraðbanka í miðbæ Reykjavíkur.

Hyggst félagið opna fleiri hraðbanka víðs vegar um Reykjavík og nágrenni, en einnig hyggst það hefja starfsemi á helstu ferðamannastöðum og bæjarfélögum á landsbyggðinni.

Ekkert úttektargjald á innlend kort

Hraðbankar fyrirtækisins munu ekki innheimta úttektargjald á innlend kort, óháð því hvaða banki gaf út kortið. Þeir verða merktir rauðum tómötum en nafn fyrirtækisins dregið af orðinu Automat.

“Við hjá Tomato viljum bæta aðgengi almennings að hraðbönkum. Tomato er með litla yfirbyggingu og getur því boðið viðskiptavinum þjónustu án þess að innheimta sérstök úttektargjöld,“ segir Arnþór Halldórsson, framkvæmdastjóri Tomato í fréttatilkynningu.

Hann segist hafa orðið var við mikla óánægju meðal almennings vegna almennra hækkana á þjónustugjöldum bankanna og fækkun útibúa og hyggst fyrirtækið fylla í það skarð sem bankarnir skilja eftir sig.