Nýlega tóku sæti í framkvæmdastjórn HRV Engineering þeir Valur Hreggviðsson og Símon Þorleifsson.

HRV Engineering er sérhæft þjónustufyrirtæki við áliðnaðinn. Félagið hefur komið að framkvæmdum við öll íslensku álverin og er að ljúka stóru og krefjandi verkefni sem staðið hefur undanfarin ár fyrir álverið KUBAL í Svíþjóð.

Þar hefur HRV Engineering annast yfirstjórn með stærstum hluta breytinga og stækkun álversins, sem meðal annars hefur að leiðarljósi að auka vistmildi rekstrarins með tæknilausnum frá  HRV Engineering.

Símon Þorleifsson hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra sviðs HRV Engineering sem veitir forstöðu ráðgjöf vegna rekstrar og viðhalds álvera.

Starfseiningin veitir álverunum á Íslandi; Norðuráli og Fjarðaáli, alhliða verkfræðiráðgjöf vegna greininga, undirbúnings og stjórnunar fjárfestingaverkefna, úttekta á kerfum og búnaði, verkefnastjórnar (EPCM) og viðhalds- og framleiðslustjórnunar ásamt fleiru.

Þá sinnir sviðið einnig kynningum HRV Engineering á nýjum tæknilausnum frá HRV Engineering á sviði framleiðslu og tækni álvera.

Símon lauk M.Sc. prófi í sjávarútvegsverkfræði frá Aalborg Universitets Center í Danmörku og hefur tæplega tveggja áratuga reynslu af stefnu-, ferla- og árangursstjórnun hjá fyrirtækjum hér á landi og erlendis.

Símon starfaði síðast sem stefnumótunarráðgjafi hjá Capacent, m.a. sem aðalráðgjafi vegna „Balanced Scorecard“, en Símon var raunar aðalhvatamaður að komu Robert Kaplan og David Norton, höfunda aðferðarfræðarinnar, hingað til lands á sínum tíma, segir í tilkynningu frá félaginu.

Valur Hreggviðsson hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra verkefnastjórnunarsviðs HRV Engineering.

Starfssviðið ber ábyrgð á að tryggja sérhverju verkefni HRV Engineering nauðsynlegan mannauð, verkferla og aðstöðu.  Helsta verkefni sviðsins er þróun og innleiðing verkferla í samræmi við alþjóðlegar kröfur við undirbúning, hönnun og byggingu álvera.

Einnig heyrir inntaka starfsfólks undir verkefnastjórnunarsvið ásamt stjórnun og þjálfun starfsfólks þannig að fullt samræmi sé í aðferðafræði og verklagi HRV Engineering milli verkefna.

Valur lauk M.Sc. prófi í rafmagnsverkfræði frá Chalmers Teknisk Högskola í Gautaborg 1986 og MBA námi frá Oregon State University 1991.

Hann á að baki ríflega tveggja áratuga störf við hönnun, ráðgjöf og verkefnastjórnun hjá VJI, Alta og VST auk þess sem hann hefur gegnt störfum framkvæmdastjóra hjá ÍSKRAFT og Altech-JHM.

Aðrir í framkvæmdastjórn

Auk þeirra Símonar og Vals sitja í framkvæmdastjórn HRV Engineering þau Kolbeinn Björnsson, forstjóri HRV Engineering, Þröstur Guðmundsson, framkvæmdastjóri álsviðs og nýsköpunar þróunarsviðs, Steinunn Ketilsdóttir, mannauðsstjóri, Þorsteinn Guðbjörnsson, fjármálastjóri og Guðmundur Valsson, upplýsinga- og ferlastjóri.