Alþjóðasamtök flugrekenda, IATA, hafa mótmælt harðlega fyrirhuguðum komuskatti, sem leggjast eiga á alla ferðamenn sem fljúga til og frá Íslandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá IATA sem þegar hefur sent harðort bréf til Alþingis að eigin söggn.

„Það er ekkert vit í þeim skatti sem nú stendur til að leggja á í hagkerfi sem vinnur í því að ná sér eftir áhrif fjármálakrísunnar,“ segir Giovanni Bisignani, forstjóri IATA í tilkynningunni (í lauslegri þýðingu Viðskiptablaðsins).

Þá hvetur Bisignani íslensk stjórnvöld til að „drepa ekki gæsina sem liggur á gullnu eggjunum“ eins og það er orðað í tilkynningunni. Ferðamannaiðnaðurinn hér á landi sé stór og mikilvægt að flugfélögin verði ekki kyrkt með auknum sköttum.

Fram kemur að IATA hafi lagt fyrir Alþingi skýrslu sem sýni hversu háður ferðaiðnaðurinn sé verðbreytingum. Þannig segir að ef verð á flugmiðum hækki um 10% leiði það til 11% samdráttar í fjölda ferðamanna á meðan því hafi þegar verið spáð að fjöldi ferðmanna fari upp í 1 milljón manns innan fárra ára.

Þá segir Bisignani að nýir skattar geti verið áfall fyrir ferðaiðnaðinn þegar hagkerfið hefði síst efni á slíku áfalli.

„Samkeppnisstaða Íslands er nú þegar erfið. Ekki gera hana verri með því að bæta við nýjum sköttum,“ segir Bisignani.

„Langtímasjónarmið yfirvalda ætti að vera njóta teknanna af ferðamönnum með því að gera það eins ódýrt og hægt er að koma til landsins. Að snúa ferðamönnum við með nýjum sköttum er skammtíma brjálæði.“