Nýtt stjórnskipulag hefur verið samþykkt fyrir Icelandair Group og lykilstjórnendur ráðnir til starfa. Icelandair Group er dótturfyrirtæki FL Group og er samstæða tólf sjálfstæðra fyrirtækja sem einkum starfa í flugi og ferðaþjónustu segir í frétt félagsins.

Við yfirstjórn samstæðunnar verður lögð áhersla fjóra meginþætti í starfseminni, sem eru alþjóðlegt áætlunarflug, alþjóðlegt
leigu- og fragtflug, ferðaþjónusta og flugvélaviðskipti. "Innan Icelandair Group er rekin umfangsmikil starfsemi á öllum þessum sviðum með mikla vaxtarmöguleika. Stjórnskipulagið byggir á því að innan fyrirtækjanna sé þekking og kraftur til áframhaldandi uppbyggingar og arðsemi á vettvangi hvers og eins, en að yfirstjórnin leiti nýrra vaxtartækifæra og efli skilvirkni innan samstæðunnar", segir Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group og Icelandair, stærsta dótturfélagsins.

Þrír stjórnendur munu heyra beint undir forstjóra Icelandair Group, en þeir
eru:

Sigþór Einarsson, framkvæmdastjóri þróunar og stefnumótunar Sigþór mun hafa með höndum stefnumótun fyrir samstæðuna, hafa yfirumsjón með flugflotamálum hennar og samræma framrás samstæðunnar á vaxtarmarkaði, svo sem á sviði frakt- og leiguflugs. Sigþór mun fyrst um sinn jafnframt gegna starfi framkvæmdastjóra Loftleiða svo sem verið hefur. Hann hóf störf hjá Flugleiðum 1996, og hafði þá umsjón með gæðastjórnunar- og stefnumótunarverkefnum. Árið 1999 tók hann við stöðu forstöðumanns viðskiptadeildar á flugrekstrarsviði, þar sem hann stýrði m.a. sókn félagsins inn á leiguflugsmarkað eftir margra ára hlé. Það leiddi svo til þess að sett var á stofn sérstök flugflota- og leiguflugsdeild, og veitti Sigþór henni forstöðu allt þar til Loftleiðir-Icelandic voru stofnaðar hinn 1. janúar 2002, en Sigþór hefur verið framkvæmdastjóri þess fyrirtækis frá upphafi. Sigþór er með meistarapróf í hagverkfræði frá háskólanum í Darmstadt í Þýskalandi. Hann er kvæntur Sigrúnu Guðmundsdóttur arkitekt, og eiga þau tvo syni.

Hlynur Elísson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Hlynur mun stýra fjármálum Icelandair Group, með áherslu á bankaviðskipti, áhættustýringu og rekstrarupplýsingar fyrirtækja samstæðunnar. Hann hóf störf hjá Flugleiðum Innanlands árið 1995 sem fjármálastjóri, og starfaði sem forstöðumaður fjármálasviðs frá stofnun Flugfélags Íslands hf. 1997 til ársins 2005. þegar hann tók við starfi framkvæmdastjóra fjármála- og rekstrarstýringarsviðs Icelandair. Hlynur útskrifaðist með B.S. próf í viðskiptafræðum frá Rockford College, Illinois, árið 1991. Hann er kvæntur Addý Ólafsdóttur og eiga þau einn son.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingastjóri

Guðjón mun stýra upplýsinga- og samskiptamálum fyrir Icelandair Group, með áherslu á fjárfestatengsl og innri og ytri samskipti félagsins. Hann hóf störf hjá Flugleiðum árið 2000 sem deildarstjóri í upplýsingadeild. Hann varð forstöðumaður upplýsingadeildar Flugleiða og Icelandair 2003 og síðan FL Group á síðasta ári. Hann var áður dagskrárstjóri Landafundanefndar, fréttamaður á Stöð2, Morgunblaðinu, Helgarpóstinum og Vísi, starfaði við auglýsingagerð og almannatengsl og er höfundur fræðibóka og heimildarmynda. Hann er kvæntur Brynhildi Gísladóttur og eiga þau þrjá syni.