*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Fólk 26. mars 2019 16:51

Nýir meðeigendur hjá Hagvangi

Sverrir Briem og Geirlaug Jóhannsdóttir eru nýir meðeigendur hjá Hagvangi.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Sverrir Briem og Geirlaug Jóhannsdóttir eru nýir meðeigendur hjá Hagvangi. Þau munu bæði taka sæti í stjórn fyrirtækisins en Sverrir mun jafnframt taka við stjórnarformennsku. Samhliða kaupunum hefur Þórir Þorvarðarson látið af störfum en Katrín S. Óladóttir verður áfram framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hagvangi.

Sverrir Briem er með meistaragráðu í sálfræði frá Kaupmannahafnarháskóla með áherslu á vinnusálfræði og er með leyfi landlæknis til að starfa sem sálfræðingur. Hann sérhæfði sig í starfsmannavali og viðtalstækni hjá BI Norwegian Business School. Sverrir hefur meðal annars starfað sem viðskiptastjóri hjá Góðu fólki auglýsingastofu, í markaðsdeild Landsbankans og hjá Nóa Síríus. Hann starfaði sem sálfræðingur í Noregi áður en hann gekk til liðs við Hagvang árið 2012. Sverrir sérhæfir sig í stjórnendaleit og hefur leitt margar af stærri ráðningum í íslensku atvinnulífi á undanförnum árum.

Geirlaug hefur lokið MBA námi frá Háskólanum í Reykjavík með áherslu á mannauðsstjórnun og BS gráðu í rekstrarfræðum frá Háskólanum á Bifröst. Hún starfaði áður við Háskólann á Bifröst sem aðjúnkt á viðskiptasviði Háskólans á Bifröst og kenndi þar m.a. mannauðsstjórnun. Hún var um árabil forstöðumaður símenntunar Háskólans á Bifröst og síðar verkefnastjóri tilraunaverkefnis um hækkað menntunarstig í Norðvesturkjördæmi. Áður starfaði Geirlaug sem fræðslustjóri hjá álverinu í Straumsvík. Geirlaug hefur reynslu af sveitarstjórnarstörfum og setið í ýmsum stjórnum, ráðum og nefndum. Geirlaug gekk til liðs við Hagvang árið 2015 og hefur unnið mikið fyrir sveitarfélög og setið í valnefndum vegna ráðninga stjórnenda og sérfræðinga hjá opinberum stofnunum og fjölmörgum fyrirtækjum.

Á þessum tímamótum er Þóri Þorvarðarsyni þökkuð frábær störf í þágu fyrirtækisins. Þórir hefur starfað við ráðningar óslitið frá árinu 1981 og má segja með sanni að hann hefur á ferli sínum ráðið nokkur þúsund manna til starfa á íslenskum vinnumarkaði. 

Stikkorð: Hagvangur