Sverrir Briem og Geirlaug Jóhannsdóttir eru nýir meðeigendur hjá Hagvangi. Þau munu bæði taka sæti í stjórn fyrirtækisins en Sverrir mun jafnframt taka við stjórnarformennsku. Samhliða kaupunum hefur Þórir Þorvarðarson látið af störfum en Katrín S. Óladóttir verður áfram framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hagvangi.

Sverrir Briem er með meistaragráðu í sálfræði frá Kaupmannahafnarháskóla með áherslu á vinnusálfræði og er með leyfi landlæknis til að starfa sem sálfræðingur. Hann sérhæfði sig í starfsmannavali og viðtalstækni hjá BI Norwegian Business School. Sverrir hefur meðal annars starfað sem viðskiptastjóri hjá Góðu fólki auglýsingastofu, í markaðsdeild Landsbankans og hjá Nóa Síríus. Hann starfaði sem sálfræðingur í Noregi áður en hann gekk til liðs við Hagvang árið 2012. Sverrir sérhæfir sig í stjórnendaleit og hefur leitt margar af stærri ráðningum í íslensku atvinnulífi á undanförnum árum.

Geirlaug hefur lokið MBA námi frá Háskólanum í Reykjavík með áherslu á mannauðsstjórnun og BS gráðu í rekstrarfræðum frá Háskólanum á Bifröst. Hún starfaði áður við Háskólann á Bifröst sem aðjúnkt á viðskiptasviði Háskólans á Bifröst og kenndi þar m.a. mannauðsstjórnun. Hún var um árabil forstöðumaður símenntunar Háskólans á Bifröst og síðar verkefnastjóri tilraunaverkefnis um hækkað menntunarstig í Norðvesturkjördæmi. Áður starfaði Geirlaug sem fræðslustjóri hjá álverinu í Straumsvík. Geirlaug hefur reynslu af sveitarstjórnarstörfum og setið í ýmsum stjórnum, ráðum og nefndum. Geirlaug gekk til liðs við Hagvang árið 2015 og hefur unnið mikið fyrir sveitarfélög og setið í valnefndum vegna ráðninga stjórnenda og sérfræðinga hjá opinberum stofnunum og fjölmörgum fyrirtækjum.

Á þessum tímamótum er Þóri Þorvarðarsyni þökkuð frábær störf í þágu fyrirtækisins. Þórir hefur starfað við ráðningar óslitið frá árinu 1981 og má segja með sanni að hann hefur á ferli sínum ráðið nokkur þúsund manna til starfa á íslenskum vinnumarkaði.