Nýlega bættust tveir nýir meðeigendur við eigendahóp PricewaterhouseCoopers ehf. (PwC) á Íslandi, en það eru þau Magnús Már Vignisson og Sara Henný H. Arnbjörnsdóttir. Frá þessu er sagt í fréttatilkynningu. Eigendur félagsins eru núna 18 talsins, samkvæmt heimasíðu félagsins.

Magnús Már Vignisson er löggiltur endurskoðandi. Magnús Mar hóf störf hjá PwC árið 2011 og hefur síðan þá unnið á endurskoðunarsviði PwC. Hann lauk meistargráðu í endurskoðun og reikningsskilum frá Háskóla Íslands árið 2014 og hlaut löggildingu til endurskoðunarstarfa árið 2016.

Magnús Már hefur undanfarin ár verið verkefnisstjóri í sumum af stærstu endurskoðunarverkefnum PwC, einkum fjármálafyrirtækjum. Jafnframt hefur hann verið í endurskoðunarteymum fjármálafyrirtækja hjá PwC í Svíþjóð.

Sara Henný H. Arnbjörnsdóttir er löggiltur endurskoðandi. Sara hóf störf hjá PwC árið 2008, fyrst sem móttökuritari en síðar á endurskoðunarsviði félagsins. Hún lauk meistaragráðu í endurskoðun og reikningsskilum frá Háskóla Íslands árið 2012 og hlaut löggildingu til endurskoðunarstarfa árið 2017.

Sara Henný hefur undanfarin ár verið verkefnisstjóri í sumum af stærstu endurskoðunarverkefnum PwC, einkum skráðum félögum og einingum tengdum almannahagsmunum.