Í dag, Fullveldisdaginn 1. des þegar þjóðin fagnar 99 árum af stjórn flestra eigin mála í eigin hendi, taka nýju ráðherrarnir í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur formanns Vinstri grænna með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.

V iðskiptablaðið greindi í gær hverjir hinir nýju ráðherrar verða, en það eru þó ekki bara menn sem færast í, úr og eftir atvikum milli embætta, heldur færast einnig nokkur málefni á milli. Þannig staðfesti forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í gær tillögu nýs forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta.

Helstu breytingar frá gildandi úrskurði fela í sér að málefni hagskýrslugerðar og upplýsinga um landshagi, þ.m.t. málefni Hagstofu Íslands, færist til forsætisráðuneytisins frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Þá mun forsætisráðherra á ný taka við formennsku í Vísinda- og tækniráði en umsýsla og undirbúningur funda ráðsins verður áfram á verksviði mennta- og menningarmálaráðuneytis. Loks færast málefni upplýsingasamfélagsins, þ. á m. verkefnið Ísland.is, til fjármála- og efnahagsráðuneytisins en málefnið heyrði áður undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.

Formleg afhending á lyklavöldum í ráðuneytunum sem skipta um ráðherra fer fram á næstu klukkustundum, samkvæmt hefð. Engin athöfn verður hins vegar í Utanríkisráðuneytinu, Dómsmálaráðuneytinu og Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu enda sitja þau Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigríður Á. Andersen og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir áfram í sínum embættum.

Lyklaskiptin fara fram eins og hér segir:

  • 9:00 - Forsætisráðuneytið: Katrín Jakobsdóttir tekur við lyklunum úr hendi Bjarna Benediktssonar
  • 9:30 - Fjármálaráðuneytið: Bjarni Benediktsson fer aftur í fjármálaráðuneytið eftir um árs fjarveru og tekur við lyklunum úr hendi Benedikt Jóhannessonar
  • 10:00 - Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið: Sigurður Ingi Jóhannsson tekur við af Jóni Gunnarssyni sem hverfur úr ríkisstjórn
  • 10:30 - Sjávarútvegs - og landbúnaðarráðuneytið: Kristján Þór Júlíusson tekur við af Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur
  • 11:00 - Umhverfis- og auðlindaráðuneytið: Guðmundur Ingi Guðbrandsson tekur við af Björtu Ólafsdóttur
  • 11:30 - Menntamálaráðuneytið: Lilja Dögg Alfreðsdóttir tekur við lyklunum úr hendi Kristjáns Þórs Júlíussonar
  • 12:00 - Félags- og jafnréttismálaráðherra: Ásmundur Einar Daðason tekur við af Þorsteini Víglundssyni
  • 12:15 - Heilbrigðisráðuneytið: Svandís Svavarsdóttir tekur við af Óttarri Proppé