Þrír nýir ráðgjafar hafa tekið til starfa hjá ParX viðskiptaráðgjöf samkvæmt tilkynningu frá félaginu.

Erna Agnarsdóttir hefur hafið störf sem mannauðsráðgjafi og mun hafa umsjón með vinnustaðagreiningum ParX. Erna sérhæfir sig einnig í streitu og fjarvistarstjórnun. Erna starfaði áður sem sérfræðingur í starfsmannaþjónustu Nýherja.

Þá starfaði hún hjá hagsmunasamtökum danskra stjórnenda, Lederne, við rannsókn á streitu og starfsumhverfi danskra stjórnenda. Erna lauk BA prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands og MSc prófi í sálfræði, með áherslu á vinnusálfræði, frá Kaupmannahafnarháskóla.

Lára Kristín Skúladóttir hefur verið ráðin í stjórnunarráðgjöf ParX og mun þar sinna verkefnum sem snúa meðal annars að endurhönnun verkferla/straumlínustjórnun og innleiðingu breytinga.

Hún lauk viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði frá Háskóla Íslands og er að ljúka MSc í Economics and Business Administration við Copenhagen Business School.

Þórunn María Óðinsdóttir hefur tekið til starfa í stjórnunarráðgjöf ParX. Þar annast hún verkefnastjórnun og innleiðingu stórra sem smárra breytinga innan fyrirtækja, meðal annars innleiðingu straumlínustjórnunar (Lean).

Þórunn var áður skólastjóri Varmalandsskóla og þar áður aðstoðarskólastjóri við sama skóla. Hún hefur lokið kennaraprófi hjá Kennaraháskóla Íslands og meistaraprófi í stjórnun við Háskólann á Bifröst.