Rekstaraðilar hótelanna Reykjavík Residence og Gistiheimilisins Domus í miðborginni hafa gert samning til fimm ára við Félagsstofnun stúdenta um rekstur sumarhótelsins Hótels Garðs í húsakynnum Gamla Garðs við Hringbraut.

Fram kemur í tilkynningu að á Hótel Garði eru 43 tveggja manna herbergi. Hægt er að velja á milli uppbúinna rúma og svefnpokapláss. Morgunverður fylgir, auk þess sem gjaldfrjáls þráðlaus netaðgangur er í boði.

Gamli Garður er stúdentagarður, fyrsta bygging Háskóla Íslands á háskólasvæðinu. Sigurður Guðmunundsson, húsameistari ríkisins teiknaði húsið. Fyrst stúdentarnir fluttu þangað inn haustið 1934.

Auk herbergja fyrir stúdenta voru í húsinu herbergi fyrir garðprófast, lestrarsalur, bókaherbergi og íþróttasalur í kjallaranum, að því er fram kemur í tilkynningu.

Háskólastúdentar búa enn á Gamla Garði yfir vetrartímann en sumarhótelið er opið frá 1. júní til 24. ágúst.