Að sögn Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara, hefur verið ákveðið að falla frá ætlunum um þrír nýir saksóknarar embættisins einbeiti sér að sínum bankanum hver enda gæti slíkt takmarkað um of starfssvið saksóknaranna. Að sögn Ólafs var talið heppilegra að hafa möguleika á að flytja saksóknaranna þrjá á milli verka eftir umfangi og hugsanlega láta tvo saksóknara vinna saman í mjög umfangsmiklum málum.

"Kosturinn við það er að það er hægt að færa styrk embættisins til á milli mála og hafa menn þar sem eldurinn er heitastur,“ sagði Ólafur. Umsóknarfrestur um nýju stöðurnar rann út í gær. Í upphafi voru hugmyndirnar að baki þessum þremur nýju saksóknurum að þeir tækju fyrir sinn bankann hver og kynnti Eva Joly, sérstakur ráðgjafi saksóknara, málið þannig.

Sjálfstæði saksóknaranna mun hins vegar felast í því að það verður á þeirra valdi að taka ákvörðun um að gefa út ákæru þegar gögn málsins liggja fyrir. Sérstakur saksóknari verður þó yfir þá settur og getur þannig tekið af þeim mál, telji hann það rétt. Allir eru þeir þó settir undir embætti ríkissaksóknara, sem er æðsti yfirmaður ákæruvalds í landinu, og hann getur gefið fyrirmæli um framgang mála, bæði almenn fyrirmæli og um einstök mál.

Hjá embættinu eru nú 16 starfsmenn en þeim mun fjölga um þrjá þegar búið verður að ráða hina nýju saksóknara. Auk þess nýtur embættið ráðgjafar Evu Joly og á hennar vegum eru tveir erlendir sérfræðingar. Annars vegar er franski sérfræðingurinn Jean-Micheal Matt og svo hins vegar norski sérfræðingurinn Helge Skogseth Berg. Þeir koma að vinnunni fyrir hennar milligöngu en vinna ráðgjafavinnu fyrir embættið. Að sögn Ólafs hafa þessir erlendu sérfræðingar fengið nokkur verkefni sem þeir eru að vinna. Um eðli þeirra vildi hann ekki tjá sig frekar við Viðskiptablaðið.

Sjá nánar viðtal við Ólaf Þór í Viðskiptablaðinu í dag.