Í viðtali við Hafþór Hafsteinsson, forstjóra Avion Service, í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að síðan viðræður hófust um sölu Avion Aircraft Trading hafi félagið verið að gera fleiri samninga sem hann telur allt eins geta aukið verðmæti þess enn frekar.

Í lok júní voru kynntar viðræður við erlendan fjárfesti um kaup á 51% hlut í Avion Aircraft Trading og var greint frá því þegar sex mánaða uppgjör félagsins var kynnt. Þá mun hafa verið búið að handsala samning við fjárfesti eftir nokkra mánaða viðræður og voru stjórnendur bjartsýnir á að það myndi ganga eftir. Þegar síðan kom að því að loka samningnum mun, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, væntanlegur kaupandi hafa gert nýjar kröfur, s.s. að fá lánaðan hluta kaupverðsins. Í lokaviðræðum við samningsgerð var ljóst að fleiri aðilar höfðu áhuga á að koma að félaginu og því var ákveðið að taka upp viðræður við nýja aðila. Stjórn Avion Group ákvað í ljósi þessa að rætt skyldi við fleiri aðila eins og kom fram í tilkynningu félagsins. Þær viðræður standa yfir og er áætlað að niðurstaða liggi fyrir innan skamms, segir í tilkynningu félagsins.

Að sögn Hafþórs Hafsteinssonar, forstjóra Avion Service, eru það aðallega tveir aðilar sem koma sterklega til greina og eru viðræður nú í fullum gangi enda áhugi fyrir því hjá félaginu að ljúka þeim á þessu fjárhagsári eða fyrir lok október. Þannig myndi söluhagnaður vegna kaupanna geta hjálpað niðurstöðu þessa árs. Avion Aircraft Trading er bókað á 6 milljónir dollara í reikningum Avion Group en félagið hefur verið metið á 100 milljónir dollara í þeim samningum sem hafa átt sér stað. Það verð er talið endurspegla virði þeirra samninga sem eru inni í félaginu. Hafþór sagðist halda að verðmætið hefði aukist enn frekar. "Síðan við hófum þessar viðræður höfum við verið að gera fleiri samninga þannig að það má kannski segja að það verðmæti sé orðið aðeins meira. Við viljum fá meira út úr þessu ef við getum enda verið að ganga frá samningum," sagði Hafþór og benti á að félagið myndi ganga frá samningum í september sem ættu að hafa jákvæð áhrif á niðurstöðuna á Avion Service sviðinu.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.