Þrír nýir starfsmenn hafa bæst við starfsmannahóp Ferðaskrifstofunnar Gaman Ferða.

Sigurður Hilmar Guðjónsson hefur verið ráðinn sérfræðingur í íþróttadeild Gaman Ferða. Síðustu ár hefur fjöldi þeirra liða sem hafa farið á vegum Gaman Ferða í keppnis- og æfingaferðir margfaldast. Einnig hafa handbolta- og fótboltaskólar Gaman Ferða slegið í gegn að því er segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Hilmar er með BA í hagfræði og MS í alþjóðaviðskiptum og markaðsfræði. Hilmar er einnig með UEFA B þjálfaragráðu. Hilmar hefur meðal annars unnið sem grunnskólakennari, deildarstjóri frístunda- og forvarnarsviðs Sandgerðisbæjar og verið verkefnastjóri hjá Fjölsmiðjunni á Suðurnesjum.

Sólveig Dögg Edvardsdóttir hefur verið ráðin sérfræðingur í hópadeild Gaman Ferða. Hópadeild Gaman Ferða hefur stækkað afar hratt síðustu mánuði og því nauðsynlegt að fá fleiri starfsmenn í deildina. Sólveig er með BA í ferðamálafræði frá Háskóla Íslands. Sólveig hefur meðal annars unnið hjá Icelandair sem ferðaráðgjafi og núna síðast vann hún hjá Nordic Visitor.

Auður Steinberg hefur verið ráðin sérfræðingur í utanlandsdeild Gaman Ferða. Vegna aukinna umsvifa í utanlandsdeild Gaman Ferða var ljóst að Gaman Ferðir þurftu að fjölga starfsmönnum í deildinni.

Auður er með diplómu í viðburðastjórnun og BA í ferðamálafræði frá Háskólanum á Hólum. Auður hefur meðal annars unnið hjá Icelandair Hotels Reykjavík Marina, Your Perfect Day í gegnum Iceland Travel og núna síðast hjá Nordic Visitor.

Um Gaman ferðir

Ferðaskrifstofan Gaman Ferðir var stofnuð árið 2012. WOW air keypti helmingshlut í félaginu í apríl 2015 og hefur fyrirtækið stækkað hratt síðan þá. Fyrstu árin voru starfsmenn félagsins aðeins tveir, Þór Bæring Ólafsson og Bragi Hinrik Magnússon en þeir eiga hinn helminginn í félaginu á móti WOW air. Í dag starfa hjá Gaman Ferðum 15 manns.