Auglýsingastofan Hvíta húsið hefur bætt við sig nýju starfsfólki síðustu misseri. Um er að ræða bæði reynt fólk sem og fólk sem er að stíga sín fyrstu skref í bransanum.

Agnes Hlíf Andrésdóttir gekk í raðir Hvíta hússins í febrúar síðastliðnum. Hún er viðskiptastjóri og starfaði áður hjá H:N markaðssamskiptum. Hún hefur unnið með breiðum hópi viðskiptavina, allt frá tískufyrirtækjum til orkurisa. Agnes Hlíf er með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum með áherslu á stjórnun og starfaði um tíma hjá rannsóknarsetri vinnuréttar og jafnréttismála. Eins hefur hún reynslu úr háskólasamfélaginu. Agnes Hlíf hefur unnið að markaðsmálum bæði innanlands og utan, meðal annars í Osló.

Edda Kentish hóf störf í júní síðastliðnum sem hugmynda- og textasmiður. Hún var áður á Íslensku auglýsingastofunni, þar sem hún vann á ensku fyrir flest alla kúnna stofunnar. Hún vann lengst af sem hugmynda- og textasmiður fyrir Icelandair en hóf síðar að sinna öðrum viðskiptavinum stofunnar, á borð við Air Iceland Connect og Inspired by Iceland. Edda vinnur einnig töluvert í mótun heildarstefnu fyrirtækja. Sem tvítyngdur textasmiður er hún jafnvíg á ensku og íslensku, sem er strax farið að nýtast viðskiptavinum Hvíta hússins.

Júlía Skagfjörð Sigurðardóttir hóf einnig störf í júní og var áður á Íslensku auglýsingastofunni. Júlía er samskiptasérfræðingur og sinnir m.a. greiningum og áætlanagerð fyrir umsvif viðskiptavina á netinu. Hún hefur víðtæka reynslu af markaðsmálum á netinu, t.d. á sviði fjarskipta, verslunar og þjónustu og trygginga. Júlía hefur einnig kennt markaðsfræðikúrsa við Háskóla Íslands og Listaháskólann, þá einkum í markaðsrannsóknum, aðferðarfræði, markaðsfræði í skapandi greinum og fleira.

Halldór Frank Hafsteinsson hóf störf í vor og sinnir kvikmyndagerð. Hann hefur brennandi áhuga á faginu og hefur gert stuttmyndir frá unga aldri. Halldór hefur nýlokið námi og vinnur náið með reyndu starfsfólki stofunnar.

Jenný Huld Þorsteinsdóttir hóf einnig störf í vor og er grafískur hönnuður. Hún lauk tveggja ára námi í sjónlistum frá Myndlistarskólanum í Reykjavík og flutti þá til Ítalíu. Þar útskrifaðist hún sem grafískur hönnuður frá Istituto Europeo di Design Milano. Hún starfaði sem yfirhönnuður hjá Motive Productions og sem grafískur hönnuður hjá Háskólanum í Reykjavík áður en hún færði sig á Hvíta húsið.

Anna Jónsdóttir hóf störf í ágúst og hefur nýlokið námi í grafskri hönnun frá Wilson School of Design í Kanada. Meðal verkefna hennar, bæði í námi og meðfram námi, eru endurmörkun, hönnun vörumerkis frá grunni, hönnun bókakápa og fleira.

Rán Ísold Eysteinsdóttir hefur gert Hvíta húsið að samastað sínum undanfarin sumur, meðfram námi sínu í Listaháskóla Íslands. Rán er nú að hefja síðasta ár BA náms í grafískri hönnun en hefur þegar látið að sér kveða og meðal annars verið í hönnunarteymi Druslugöngunnar.

,,Það skiptir okkur miklu máli að starfsfólk sem velst inn á stofuna hafi rými til þess að sýna hvað í þeim býr. Á sama tíma teljum við mikilvægt að fólk sem gengur í okkar raðir komi með verðmæta þekkingu og eða reynslu sem nýtist viðskiptavinum okkar. Við erum sérstaklega ánægð með að fá að nýta krafta nýs starfsfólks á komandi árum,” segir Elín Helga Sveinbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptastýringar hjá Hvíta húsinu.