Logos lögmannsþjónusta hefur bætt við sig fjórum nýjum starfsmönnum. Hafa þar verið ráðnir nýr skrifstofustjóri, forstöðumaður fjárhagsdeildar og tveir fulltrúar.

Hildur Ragna Kristjánsdóttir hefur verið ráðin skrifstofustjóri. Hildur er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands, með MSc. gráðu í stjórnun frá BI háskólanum í Ósló. Hildur er einnig útskrifuð sem markþjálfi frá fyrirtækinu Evolvia. Helstu verkefni skrifstofustjóra felast í umsjón með rekstrarsviðum félagsins. Hildur hefur margra ára starfsreynslu frá Nýherja og Eimskip hefur undanfarin ár starfað sem framkvæmdastjóri Heilsuborgar. Hildur er gift Alexander K. Guðmundssyni viðskiptafræðingi og eiga þau þrjú börn.

Sigrún Jónsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður fjárhagsdeildar. Sigrún er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur starfað sem verkefnastjóri hjá Deloitte sl. 13 ár. Hjá Deloitte sinnti Sigrún endurskoðun og uppgjöri stórra og smárra fyrirtækja, stýrði ýmsum starfsmannatengdum málum á endurskoðunarsviði ásamt umsjón með úttektum og gæðamálum. Sigrún mun bera ábyrgð á fjárreiðum félagsins og rekstri fjárhagsdeildar. Sigrún er gift Sigurði Jóni Björnssyni framkvæmdastjóra fjármálasviðs hjá Íbúðalánasjóði og eiga þau tvo syni.

Freyr Snæbjörnsson hefur verið ráðinn sem fulltrúi til að sinna lögfræðilegum verkefnum. Freyr útskrifaðist með MA gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands í janúar 2014. Freyr hóf störf hjá LOGOS lögmannsþjónustu eftir útskrift en hafði áður starfað hjá fyrirtækinu sem laganemi samhliða námi frá árinu 2013. Freyr hefur einnig starfað hjá Motus og Lögheimtunni og verið aðstoðarkennari í kröfurétti við lagadeild Háskóla Íslands. Freyr er giftur Björk Sigurjónsdóttur hjúkrunarfræðingi og eiga þau tvo syni.

Kristófer Jónasson hefur verið ráðinn sem fulltrúi til að sinna lögfræðilegum verkefnum. Kristófer útskrifaðist með MA gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík vorið 2014 en hann starfaði áður sem laganemi hjá LOGOS lögmannsþjónustu samhliða námi frá árinu 2012.