Tekin verður ákvörðun um það í þessari viku hvaða starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur flytjist yfir til Reykjavík Energy Invest í stað þeirra fjögurra sem sögðu upp störfum fyrir mánaðamót.

Þetta segir Hjörleifur B. Kvaran, starfandi forstjóri REI.

„Við munum ekki eiga í vandræðum með að manna þessi störf,“ segir hann.

REI er í hundrað prósent eigu OR. Fram kom í fjölmiðlum fyrir helgi að starfsmennirnir fjórir hafi sagt upp vegna óvissu um framtíð REI. Auk þeirra starfa hjá REI í fullu starfi, Hjörleifur B. Kvaran og Guðmundur F. Sigurjónsson framkvæmdastjóri. Hjá REI starfa einnig sumarstarfsmenn.

Gert er ráð fyrir því að starfsmennirnir fjórir vinni út uppsagnarfrestinn. Stjórn REI vinnur nú að stefnumótun um framtíð fyrirtækisins og segir Hjörleifur að stjórnin muni hittast í þessari viku til að halda þeirri vinnu áfram. Hún skoðar meðal annars hvernig fara á með þau verkefni REI sem nú eru í gangi.

„Það er verið að skoða hvernig þeim málum eigi að vera fyrirkomið í framtíðinni. Allt miðast þetta að því að reyna að koma sérfræðiþekkingu Orkuveitunnar og REI á framfæri en takmarka um leið fjárhagslega áhættu,“ segir Hjörleifur.

Hann segir líklegt að nýr forstjóri REI verði ekki ráðinn fyrr en stefnumótunarvinnunni verði lokið.

Það verkefni REI sem lengst er á veg komið, að sögn Hjörleifs, er verkefnið í Afríkuríkinu Djíbútí. Jarðfræðivinna, skýrslugerð og ýmis leyfi og samningar liggja fyrir en næsta skref er að færa verkefnið frá „pappírsvinnunni“ yfir á framkvæmdastigið.

Miðað er við að farið verði í frekari boranir á jarðhitasvæði þar í haust og í framhaldinu verður metið hvort ráðist verður í virkjunarframkvæmdir. Sjóður Alþjóðabankans, IFC, hefur ákveðið að leggja fjóra milljónir dollara inn í það ferli, þ.e. í hagkvæmniathugunina. Vonast er til að fleiri sjóðir, svo sem hjá Evrópska fjárfestingarbankanum, komi einnig að fjármögnuninni.

„Framlagið sem Alþjóðabankinn leggur inn má ekki fara yfir 35% af kostnaði. Það þýðir að einhverjir aðrir verða að koma með 65% á móti.“

Ekki liggur fyrir hve stór hlutur REI verður í þessari hagkvæmniathugun.