Icelandic Group hefur ráðið Andrés Björnsson sem forstöðumann flutningamála og gæðastjórnunar. Þá hafa Árni Þór Snorrason og Helga Franklínsdóttir verið ráðin í gæðaeftirlit fyrirtækisins.

Andrés hefur frá árinu 2000 starfað hjá Samskipum, nú síðast sem forstöðumaður ferla og þróunar. Þar á undan starfaði hann meðal annars sem gæðastjóri hjá Samskipum auk þess sem hann veitti Íslandsdeild Samskipa í Rotterdam og umboðum erlendis forstöðu.

Andrés er með B.S. í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst og Executive MBA frá Háskólanum í Reykjavík. Mun hann hefja störf hjá Icelandic Group þann 17. nóvember næstkomandi.

Þá er Árni Þór Snorrason nýr starfsmaður í gæðaeftirliti Icelandic Group. Hann vann áður í gæðadeild Icelandic á árunum 1996‐2004, bæði á Íslandi og í Rotterdam. Árni mun vera með sérstakan fókus á gæðaeftirlit með vörum sem eru keyptar inn fyrir Norður Ameríku markað í samstarfi við High Liner Foods, en mun einnig sinna öðrum mörkuðum eftir þörfum.

Helga Franklínsdóttir er einnig nýr starfsmaður í gæðaeftirliti Icelandic Group. Helga útskrifaðist á síðasta ári með mastersgráðu í matvælafræði frá Háskóla Íslands auk þess sem hún er með B.S. í líffræði frá Auburn háskólanum í Bandaríkjunum. Helga mun vinna við almennt gæðaeftirlit hjá Icelandic Group.