Orkuveita Reykjavíkur hefur ráðið til fyrirtækisins tvo nýja forstöðumenn á fjármálasvið, þá Ásgeir Westergren og Kenneth Breiðfjörð, auk þess sem Brynja Kolbrún Pétursdóttir hefur tekið við forstöðu fjárstýringar og áætlanagerðar. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Brynja Kolbrún hefur starfað hjá Orkuveitu Reykjavíkur frá árinu 2008. Áður starfaði Brynja sem fjármálastjóri hjá Banönum og í fjármáladeild Hagkaupa.

Brynja er með B.Sc. gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og M.Sc. gráðu í fjármálum og alþjóðaviðskiptum frá Viðskiptaháskólanum í Árósum í Danmörku.

Fjárstýring og áætlanagerð er ný eining sem verður til með skipulagsbreytingum á fjármálasviðinu.

Ásgeir Westergren hefur verið ráðinn forstöðumaður áhættustýringar. Ásgeir hefur starfað hjá Reykjavíkurborg síðustu sjö árin, lengst af sem deildarstjóri áhættustýringar. Auk þess hefur Ásgeir sinnt ráðgjafastörfum og kennt við Háskólann í Reykjavík.

Ásgeir er með B.Sc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og M.Sc. gráðu í viðskiptafræði með áherslu á áhættustýringu frá sama skóla. Ingvar Stefánsson, fjármálastjóri OR, hafði fram að ráðningunni jafnframt veitt áhættustýringunni forstöðu.

Kenneth Breiðfjörð er nýráðinn forstöðumaður innkaupa- og rekstrarþjónustu. Kenneth starfaði áður hjá Húsasmiðjunni, síðast sem framkvæmdastjóri vörustýringarsviðs en þar áður sem vörustjóri og rekstrarstjóri timbursölu.

Kenneth er með B.Sc. gráðu í umhverfis- og byggingarverkfræði, M.Sc. gráðu í byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands auk MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.