Frá og með deginum í dag taka eftirfarandi breytingar gildi innan flugþjónustusviðs Avion Group (Aviation Services), segir í tilkynningu. Innan flugþjónustusviðs Avion Group eru fyrirtækin Air Atlanta Icelandic, Avia Technical Services, Suðurflug og Avion Aircraft Trading.

Hannes Hilmarsson tekur við stöðu forstjóra Air Atlanta Icelandic af Hafþóri Hafsteinssyni sem verður stjórnarformaður félagins. Hannes, sem er 41 árs, hefur verið framkvæmdastjóri fjármálasviðs og aðstoðarforstjóri Air Atlanta Icelandic frá því um síðustu áramót. Hann hefur starfað við flugrekstur undanfarin 16 ár, þar af 14 ár í stjórnendastöðum hjá Icelandair bæði hérlendis og erlendis og síðastliðinn tvö ár hjá Avion Group og Air Atlanta Icelandic. Hann er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands.

Davíð Másson tekur við stöðu forstjóra Avion Aircraft Trading af Hafþóri Hafsteinssyni sem verður starfandi stjórnarformaður félagins. Davíð, sem er 38 ára, hefur verið í stjórnendastöðum hjá Air Atlanta Icelandic síðastliðin 13 ár, bæði hérlendis og erlendis, nú síðast sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Air Atlanta Icelandic. Hann er menntaður markaðsfræðingur frá Florida Institute of Technology.

Jóhann Kárason tekur við stöðu framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs Air Atlanta Icelandic af Davíð Mássyni. Jóhann, sem er 33 ára, hefur starfað hjá Air Atlanta Icelandic síðastliðinn 14 ár bæði hérlendis og erlendis. Undarfarið hefur Jóhann verið sölustjóri í sölu- og markaðsdeild Air Atlanta Icelandic.

Hafþór Hafsteinsson mun áfram leiða Flugþjónustusvið Avion Group sem forstjóri þess afkomusviðs. Hann kemur til með að leggja aukna áherslu á framtíðarsýn, þróun viðskiptatækifæra og samhæfingu félaga innan Flugþjónustusviðsins ásamt því að vera stjórnarformaður Air Atlanta Icelandic og Avion Aircraft Trading. Hann mun einnig koma að daglegum rekstri Avion Aircraft Trading sem er ný afkomueining innan Flugþjónustusviðsins. Hafþór sem er 40 ára hefur starfað við flugrekstur í tæp 20 ár þar af 15 ár hjá Air Atlanta Icelandic og Avion Group.