Miklar breytingar hafa orðið á helstu stjórnendum hjá Borgun hf. en félagið varð til við uppskipti Kreditkorts hf. þann 1. júlí 2007.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Borgun.

Félagið býður seljendum færsluhirðingu fyrir vörumerkin MasterCard, Maestro, JCB, Diners Club og American Express, ásamt því sem það annast útgáfuþjónustu við útgefendur MasterCard, Maestro, og American Express korta á Íslandi. Í kjölfar mikilla breytinga á kortamarkaðnum og stefnumótunar var skipulagi félagsins breytt.

Nýr stjórnendahópur félagsins

Haukur Oddsson , forstjóri. Haukur tók við stöðu forstjóra Borgunar þann 5. október 2007. Fyrir þann tíma starfaði hann hjá Glitni hf. frá 1984-2007 síðast gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra viðskiptasviðs. Haukur útskrifaðist með Meistargráðu í tölvuverkfræði frá Technical University of Denmark árið 1987.

Bergþóra K. Ketilsdóttir , forstöðumaður Viðskiptavers. Bergþóra hefur starfað hjá félaginu frá því 1999 sem forstöðumaður Upplýsingatækni. Á árunum 1982 -1999 starfaði Bergþóra sem kerfisfræðingur, markaðsfulltrúi, deildarstjóri og verkefnastjóri hjá IBM á Íslandi síðar Nýherja. Bergþóra útskrifaðist frá EDB skólanum í Kaupmannahöfn árið 1977.

Sigurður Guðmundsson , forstöðumaður Verslunarsviðs. Sigurður hefur starfað hjá félaginu frá árinu 2000. Hann gegndi stöðu innheimtustjóra á árunum 2000-2005 er hann tók við starfi forstöðumanns Verslunarsviðs. Sigurður starfaði áður hjá Lögfræðistofu Suðurnesja frá1995-1998, Húsnæðisstofnun ríkisins frá 1998-1999 og Tollstjóranum í Reykjavík frá 1999-2000. Sigurður útskrifaðist frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1996 og öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi árið 1997.

Pétur Friðriksson , forstöðumaður Útgáfusviðs, Viðskiptaþróunar og Markaðsdeildar. Pétur hefur starfað hjá félaginu frá árinu 2004, þar af sem forstöðumaður frá árinu 2007. Á árunum 1999-2004 starfaði Pétur hjá Median hf., kom þar að útrás Median til Noregs auk þess að stýra hugbúnaðarþróun félagsins. Á árunum 1989 – 1999 starfaði Pétur hjá Flugleiðum hf., þar af sem deildarstjóri í upplýsingaþróun frá árinu 1996.  Pétur útskrifaðist sem rafeindatæknir í Bandaríkjunum árið 1982 og frá Háskóla Íslands sem rekstrarfræðingur árið 1997.

Margrét Kjartansdóttir , forstöðumaður Skrifstofu forstjóra. Margrét hefur starfað hjá félaginu frá 1998. Margrét útskrifaðist frá lagadeild Háskóla Íslands 1998 og öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi árið 2002.

Jón Egilsson , forstöðumaður Upplýsingatækni. Jón hefur starfað hjá félaginu frá 1. apríl 2008. Á árunum 2000-2008 starfaði Jón hjá Glitni og gegndi störfum sérfræðings, þróunarstjóra, verkefnastjóra, viðskiptastjóra og síðast forstöðumanns á Upplýsingatæknisviði. Jón hefur BSc gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Davíð Þ. Jónsson , forstöðumaður Fjármálasviðs. Davíð hefur starfað hjá félaginu frá árinu 2005. Davíð útskrifaðist með BSc gráðu frá Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík sama ár.