Creditinfo Lánstraust hefur ráðið til sín fjóra nýja lykilstjórnendur, samkvæmt fréttatilkynningu. Þar kemur fram að Sigríður Laufey Jónsdóttir, Ingvar S. Birgisson, Sigríður Vala Halldórsdóttir og Ólafur Magnússon hafi verið ráðin í stjórnunarstöður innan fyrirtækisins.

Sigríður Laufey Jónsdóttir er lögfræðingur Creditinfo. Hún er lögfræðingur frá Háskóla Íslands með héraðsdómslögmannsréttindi. Áður starfaði hún sem sviðsstjóri hjá Umboðsmanni skuldara, sem sviðsstjóri hjá Motus og Lögheimtunni og sem forstöðumaður í Búnaðarbanka Íslands.

Ingvar S. Birgisson er forstöðumaður vöru- og verkefnastýringar. Ingvar er með B.Sc. gráðu í Iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. gráðu í Alþjóðlegri verkefnastjórnum frá Chalmers University of Technology.

Sigríður Vala tekur við sem forstöðumaður viðskiptastýringar. Hún hefur starfað í fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka frá árinu 2008. Hún er með B.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. gráðu í sömu grein frá University of Minnesota í Bandaríkjunum.

Ólafur Magnússon er forstöðumaður upplýsinga- og tæknisviðs. Hann gegndi síðast stöðu forstöðumanns hjá Símanum þar sem hann hafði starfað frá árinu 2006, áður var hann hjá fjarskiptafyrirtækinu 3 í Svíþjóð. Ólafur er með M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.