Nokkrar breytingar hafa orðið í stjórnendahópi Deloitte að undanförnu.

Ágúst Heimir Ólafsson hefur tekið við starfi sviðsstjóra Ráðgafarsviðs Deloitte. Fram kemur í fréttatilkynningu að undir nýju Ráðgjafarsviði Deloitte sameinast nú Fjármálaráðgjöf, Upplýsingatækniráðgjöf og Innri endurskoðun Deloitte. Með sameiningunni varð til ráðgjafarsvið þar sem saman koma allir helstu ráðgjafar Deloitte sem bjóða upp á fyrsta flokks alhliða ráðgjöf fyrir fyrirtæki og stofnanir. Ágúst útskrifaðist með Cand. Oecon frá Háskóla Íslands árið 1993 og hlaut löggildingu í endurskoðun árið 2000. Ágúst hefur mikla reynslu í fjármálaráðgjöf og hefur unnið fyrir mörg stærstu fyrirtæki og stofnanir landsins, má þar m.a. nefna ráðgjöf við samruna og kaup/sölu á félögum, verðmatsþjónustu, rekstrar-og fjárhagslega endurskipulagningu, aðstoð við skráningu á hlutabréfamarkað auk annarrar þjónustu.

Jónas Gestur Jónasson
Jónas Gestur Jónasson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Jónas Gestur Jónasson tók við starfi sviðsstjóra Viðskiptalausnasviðs Deloitte. Um er að ræða nýtt svið hjá Deloitte sem veitir alhliða þjónustu fyrir minni og meðalstór fyrirtæki og einstaklinga. Fyrir utan hefðbundna reikningsskilaþjónustu er um að ræða t.d. bókhaldsþjónustu, launavinnslu, aðstoð við gerð rekstraráætlana, samskipti við skattayfirvöld svo eitthvað sé nefnt. Jónas útskrifaðist með Cand. Oecon frá Háskóla Íslands árið 1994 og hlaut löggildingu í endurskoðun árið 1999. Jónas hefur mikla reynslu af endurskoðun og stjórnun endurskoðunarverkefna hjá sveitarfélögum auk þess sem hann hefur mikla þekkingu á rekstri sjávarútvegsfélaga sem og þjónustu við minni og meðalstór félög í hinum ýmsu atvinnugreinum.

Pálína Árnadóttir hefur tekið við starfi Áhættu- og gæðastjóra Deloitte.  Pálína útskrifaðist með Cand. Oecon frá Háskóla Íslands árið 2000 og hlaut löggildingu í endurskoðun árið 2004. Pálína hefur mikla reynslu í endurskoðun og reikningsskilum, skattskilum og IFRS. Hún hefur unnið að endurskoðun og uppgjörum fyrir ýmsa viðskiptavini Deloitte og komið að innleiðingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla. Pálína stýrir sérfræðihópi Deloitte um endurskoðun og hefur víðtæka þekkingu á alþjóðlegum endurskoðunarstöðlum.  Á árunum 2005-2007 vann Pálína hjá Deloitte í Birmingham.  Hún hefur jafnframt tekið þátt í gæðaeftirliti fyrir endurskoðunarráð hér á landi og fyrir Deloitte erlendis. Pálína hefur einnig frá árinu 2013 átt sæti í endurskoðendaráði.

Þorsteinn Guðjónsson hefur tekið við starfi sviðsstjóra Endurskoðunar og reikningsskilasviðs Deloitte. Þorsteinn útskrifaðist með Cand. Oecon frá Háskóla Íslands árið 2001 og hlaut löggildingu í endurskoðun árið 2006. Þorsteinn var áður forstöðumaður reikningsskilaþjónustu Deloitte. Hann er einn af eigendum Deloitte og hefur áralanga reynslu af endurskoðun og reikningsskilum hjá stórum og meðalstórum fyrirtækjum. Hann hefur mjög víðtæka sérfræðiþekkingu á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) og hefur stjórnað IFRS verkefnum hjá stórum alþjóðlegum fyrirtækjum.