Eins og áður hefur komið fram verður starfsemi fjarskiptafélaganna Hive og Sko, sem nýlega voru sameinuð, framvegis rekin undir merkjum Tals.

Nýir stjórnendur stýra nú félaginu og eru þeir helstu sem hér segir. Myndir af stjórendum má sjá hér til hliðar með því að smella á númerin.

Hermann Jónasson forstjóri .

Hermann starfaði hjá Landsbankanum frá árinu 2000, fyrst á verðbréfasviði en síðustu fjögur árin sem framkvæmdastjóri Sölu- og markaðssviðs. Áður starfaði hann hjá fjármálaráðuneytinu sem lögfræðingur. Hann útskrifaðist frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1995 og öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi árið 1999.

Pála Þórisdóttir framkvæmdastjóri Sölu- og þjónustusviðs.

Pála starfaði sem forstöðumaður kortadeildar og ráðgjafa- og þjónustuvers hjá Landsbankanum árin 2006-2008. Áður starfaði Pála sem forstöðumaður hjá Kreditkortum hf. árin 1999-2006. Pála er með BA gráðu í almannatengslum og auglýsingafræði frá University of South Carolina.

Ragnhildur Ágústsdóttir forstöðumaður Þróunarsviðs.

Ragnhildur starfaði áður hjá Ódýra símafélaginu frá árinu 2005, fyrst sem þjónustu- og vefstjóri en síðar sem framkvæmdastjóri í hartnær tvö ár. Áður var Ragnhildur markaðsstjóri Skjás Eins. Hún útskrifaðist með B.Sc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2005. Samhliða námi var hún formaður og varaformaður stúdentafélags Háskólans í Reykjavík. Ragnhildur var jafnframt aðstoðarkennari við skólann um tveggja ára skeið.

Sigmar Vilhjálmsson sölu- og markaðsstjóri.

Sigmar kemur til Tals frá Landsbankanum þar sem hann starfaði sem verkefnastjóri í kortadeild á Sölu- og markaðssviði bankans. Áður starfaði Sigmar hjá 365 miðlum og sinnti þar ýmsum verkefnum, þar á meðal sem sölustjóri Áskriftadeildar og forstöðumaður Sértekjudeildar. Sigmar er einnig kunnur fyrir störf sín sem sjónvarps- og útvarpsmaður.

Rúnar Gunnarsson forstöðumaður fjármálasviðs.

Áður en Rúnar kom til starfa hjá Tali starfaði hann hjá Glitni banka frá árinu 2000 og sem lánastjóri á fyrirtækjasviði frá miðju ári 2003. Hann útskrifaðist með meistaragráðu frá University of Stirling árið 1997 og sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1995.